M&V reglugerð

Menningar- og viðurkenningarsjóður KEA

Menningar- og viðurkenningasjóður KEA svf. styður við ýmis félög, verkefni og einstaklinga á félagssvæði KEA með fjárframlögum. Úthlutað er úr Menningar- og viðurkenningasjóði KEA tvisvar á ári séu fjárhagsleg skilyrði fyrir hendi að mati stjórnar hverju sinni.


Reglugerð fyrir Menningar- og viðurkenningarsjóð KEA

KEA starfrækir Menningar- og viðurkenningarsjóð sem starfa skal í samræmi við reglugerð þessa og önnur ákvæði sem bundin eru samþykktum félagsins og gildandi lögum.

1. Séu skilyrði fyrir hendi ráðstafar KEA ákveðnum fjármunum til menningar, íþrótta, mennta- og velferðarmála á félagssvæðinu. Stjórn ákveður að hluta til þá fjárhæð sem varið er til Menningar- og viðurkenningarsjóðs á yfirstandandi ári og skiptingu þeirrar fjárhæðar á milli flokka.

2. Til að undirbúa og gera tillögur um ráðstöfun fjárins í liðum 4 a og 4 b samkvæmt 4. grein þessarar reglugerðar starfar fagráð Menningar- og Viðurkenningarsjóðs KEA. Fagráð metur umsóknir og gefur þeim einkunnir í samræmi við nánari leiðbeiningar þar um.  Fagráðið skal skipað einstaklingum utan fyrirtækisins sem hafa haldbæra yfirsýn yfir þau verkefni sem þeim er falið og starfar það á ábyrgð framkvæmdastjóra  KEA. 

3. Umsóknir um styrki og framlög úr sjóðnum skulu berast í gegnum heimasíðu félagsins www.kea.is eða á skrifstofu félagsins á sérstökum eyðublöðum sem þar fást. Auglýsa skal með opinberri auglýsingu eftir umsóknum í tilteknum flokkum sjóðsins -einu sinni á ári eða oftar.  

4. Fjármunum Menningar- og viðurkenningarsjóðs skal í meginatriðum skipt milli eftirfarandi styrkja- og stuðningsflokka:

a) Menningar- og samfélagsverkefni. Um er að ræða styrki til einstaklinga, þar á meðal ungs efnilegs fólks, félaga eða hópa sem skara fram úr eða vinna að mikilvægum mennta- og menningarmálum á félagssvæðinu. Um getur verið að ræða málefni á sviðum félagsmála, minjavörslu, lista og hverra þeirra málefna sem flokkast geta sem menningarmál í víðtækri merkingu. Fagráð metur umsóknir og gefur þeim einkunn. Í einkunnagjöf fagráðs felst mat á því hvaða umsóknir skulu teljast styrkhæfar. Stjórn úthlutar fjármunum að tillögu framkvæmdastjóra til samfélagslegra verkefna hvers konar. Slík verkefni fara ekki til umfjöllunar  hjá fagráði.

b)  Íþrótta- og æskulýðsstyrkir. Almenn markmið með styrkveitingum til íþrótta og æskulýðsmála eru:

  • Að öll börn og unglingar eigi kost á einhvers konar íþróttaiðkun nálægt heimili sínu eða skóla.
  • Að íþróttamenn eða lið sem skara fram úr geti stundað markvissar æfingar og sótt mót við sitt hæfi.
  • Að byggja upp aðstöðu sem er líkleg til að stuðla að ofangreindum markmiðum
  • Að styðja almennt við íþrótta- og æskulýðsstarf klúbba og félaga sem halda úti metnaðarfullu starfi á sínu nærsvæði.

Umsóknir verða að öllu jöfnu skilgreindar samkvæmt þremur flokkum, en þeir eru ungir afreksmenn í íþróttum, sérstök verkefni, stuðningur við félög. Fagráð metur umsóknir hvað varðar unga afreksmenn og gefur þeim einkunn á grundvelli staðfestra viðmiðana. Í einkunnagjöf fagráðs felst mat á því hvaða umsóknir skulu teljast styrkhæfar.

5. Allar upplýsingar sem tilheyra umsóknum og vinnslu þeirra skal farið með sem trúnaðarmál. Einstaklingar sem skipa fagráð á hverjum tíma skulu njóta nafnleyndar við störf sín. 

6. Gera skal grein fyrir úthlutunum úr sjóðnum á heimasíðu KEA og í ársskýrslu félagsins.

7. Loforð um styrk fyrnist á tveimur árum. Ekki skal veita styrki til verkefna nema þau séu fjármögnuð að fullu.


Með staðfestingu reglugerðar þessarar falla úr gildi eldri reglur Menningar- og viðurkenningarsjóðs KEA.

Samþykkt á fundi stjórnar KEA september 2021.

Til baka