Hagnaður KEA 671 milljónir

Á aðalfundi félagisns í gær kom fram að hagnaður KEA á síðasta ári nam 671 milljónum króna eftir reiknaða skatta en var 467 milljónir árið áður.  Tekjur námu tæpum 840 milljónum króna og hækkuðu um tæpar 200 milljónir á milli ára.  Eigið fé um síðustu áramót var rúmir 6 milljarðar króna og heildareignir rúmir 6,4 milljarðar á sama tíma.  Eiginfjárhlutfall er um 94%.

Flest þeirra fyrirtækja sem KEA á eignarhluti í gengu vel á síðasta ári og endurspeglast það í um 510 milljóna króna jákvæðri gangvirðisbreytingu fjáreigna.  Á árinu fjárfesti félagið m.a. í Íslenskum verðbréfum og Sparisjóði Höfðhverfinga.  KEA hefur enn nokkuð af sínum eignum í lausu fé sem bíður fjárfestinga í fyrirtækjum og á meðan svo er hefur það eðlilega áhrif á arðsemi félagsins. Ávöxtun gangvirðiseigna var ásættanleg á síðasta ári.  Fjárfestingastefnu var breytt á síðasta ári en sú breyting mun m.a. fela í sér að almennt séð megi vænta meiri sveiflna í afkomu félagsins í framtíðinni.  Arðsemi eigenda félagsins er góð sé einnig horft til þeirra viðskiptakjara sem eigendur njóta í gegnum KEA kortið en áætluð afkoma af þeim viðskiptakjörum er 400-450 milljónir króna umfram reikningshaldslega afkomu á síðasta ári.

Félagsmönnum KEA heldur áfram að fjölga og eru nú um 20.000 eða ríflega helmingur allra íbúa á félagssvæði KEA sem eru Eyjafjarðar- og Þingeyjasýslur.

Á aðalfundi félagsins í gær voru Ólína Freysteinsdóttir og Jóhann Ingólfsson endurkjörin í stjórn.