Ábyrgð félagsmanna

Ábyrgð félagsmanna

Í samþykktum KEA segir orðrétt um ábyrgð félagsmanna og aðild:

Allir lögráða einstaklingar sem eiga lögheimili á félagssvæðinu geta orðið fullgildir félagsmenn í KEA. Einstaklingar undir lögræðisaldri, sem búsettir eru á félagssvæðinu, geta einnig orðið félagsmenn með ábyrgð forráðenda sinna og þeim takmörkunum varðandi trúnaðarstörf sem lög ákvarða.

Til að gerast félagsmaður í KEA greiðir hver einstaklingur kr. 500 í aðildargjald til félagsins og varðveitist sú fjárhæð í stofnsjóði. Skal inneign allra félagsmanna í stofnsjóði vera sú sama og jafnan nema fjárhæð aðildargjaldsins. Skal félagið standa skil á innborgun í stofnsjóð á nafni hvers félagsmanns verði breyting á inngangseyri í samræmi við samþykktir þessar.

Flytji félagsmaður burt af félagssvæðinu þarf hann ekki að ganga úr félaginu en getur áfram notið viðskiptakjara og annarra hagsmuna sem félagið býður félagsmönnum sínum upp á.

Félagsmenn bera ekki ábyrgð á heildarskuldbindingum félagsins umfram greiðslu aðildargjalds og með eignaraðild að sjóðum félagsins. Félagaskrá skal varðveitt á skrifstofu félagsins. Nöfnum og heimilisföngum nýrra félaga skal bætt á það um leið og þeir gerast félagar og skal það uppfært reglulega með samanburði við þjóðskrá.
Um vörslu félagaskrár skal farið að gildandi lögum og almennum reglum um persónuvernd.

Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg og sendast skrifstofu félagsins. Greiðist þá út stofnsjóðseign viðkomandi félagsmanns samkvæmt samþykktum þessum og í samræmi við ákvæði gildandi laga.

Gangi félagsmaður úr félaginu á hann ekkert tilkall til annarra eigna félagsins en þeirra sem skráðar eru á nafn hans og varðveitast í stofnsjóði. Sú fjárhæð er einungis eign í stofnsjóði sem nemur aðildargjaldi á hverjum tíma.

Félagsmaður getur sætt brottvísun úr félaginu að ákvörðun stjórnar, ef hann verður ber að því að vinna vísvitandi gegn hagsmunum þess. Hægt er að vísa ákvörðun stjórnar um brottvísun félagsmanns til næsta aðalfundar til ógildingar. Ákvörðun stjórnar um brottvísun skal talin ógild ef 2/3 hluti atkvæða á aðalfundinum samþykkja tillögu um ógildingu ákvörðunarinnar.