Samþykktir KEA

I. KAFLI

NAFN, HEIMILI OG TILGANGUR FÉLAGSINS

1. grein

Félagið heitir KEA og starfar í samræmi við lög um samvinnufélög nr. 22/1991- með áorðnum breytingum. Félagið notar heitið KEA eða KEA svf. jöfnum höndum. Heimili þess og varnarþing er á Akureyri. Félagssvæði KEA er frá og með Fjallabyggð í vestri til og með Langanesbyggðar í austri, tekið er mið af sveitarfélagamörkum eins og þau eru árið 2013. Félaginu er heimilt að eiga aðild að atvinnustarfsemi utan félagssvæðisins.

2. grein

Tilgangur félagsins er að vinna að hagsmunum félagsmanna og efla búsetu á félagssvæði sínu.
Þeim tilgangi sinnir félagið einkum með eftirfarandi hætti:

• að hafa með höndum umsjón og eignarhald á hlutafé KEA í hlutafélögum og öðrum félögum og taka þátt í stjórnun þeirra

• ávaxta eignir KEA og ráðstafa hæfilegum arði af þeim til félagsmanna sinna og til eflingar atvinnu og mannlífs á félagssvæðinu

• hafa frumkvæði að því að stofna til fjárfestinga og nýsköpunar í atvinnurekstri á félagssvæðinu og kalla eftir samstarfi við opinbera aðila, fyrirtæki, fjárfesta og einstaklinga í því skyni að efla atvinnulíf

• leita samninga um viðskiptakjör fyrir félagsmenn.

3. grein

Félaginu er fyrst og fremst ætlað að vera  fjárfestingarfélag og hefur því ekki með höndum atvinnurekstur, en stofnar og rekur hlutafélög og fyrirtæki sem ýmist eru að fullu í eigu KEA eða í sameign með öðrum aðilum. Þá er félaginu heimilt að starfrækja innlánsdeild í samræmi við lög um samvinnufélög nr. 22/1991.

II. KAFLI

ÁBYRGÐ FÉLAGSMANNA OG AÐILD

4. grein

Allir lögráða einstaklingar sem eiga lögheimili á félagssvæðinu geta orðið fullgildir félagsmenn í KEA. Einstaklingar undir lögræðisaldri, sem búsettir eru á félagssvæðinu, geta einnig orðið félagsmenn með ábyrgð forráðenda sinna og þeim takmörkunum varðandi trúnaðarstörf sem lög ákvarða. Til þess að öðlast kjörgengi og atkvæðisrétt á deilda- fulltrúa- eða aðalfund félagsins verður félagsmaðurinn að hafa verið skráður félagsmaður í KEA í a.m.k. tvo mánuði.

Til að gerast félagsmaður í KEA greiðir hver einstaklingur kr. 500 í aðildargjald til félagsins og varðveitist sú fjárhæð í stofnsjóði. Skal inneign allra félagsmanna í stofnsjóði vera sú sama og jafnan nema fjárhæð aðildargjaldsins. Skal félagið standa skil á innborgun í stofnsjóð á nafni hvers félagsmanns verði breyting á inngangseyri í samræmi við samþykktir þessar.

Flytji félagsmaður burt af félagssvæðinu þarf hann ekki að ganga úr félaginu en getur áfram notið viðskiptakjara og annarra hagsmuna sem félagið býður félagsmönnum sínum upp á.

5. grein

Félagsmenn bera ekki ábyrgð á heildarskuldbindingum félagsins umfram greiðslu aðildargjalds og með eignaraðild að sjóðum félagsins.

Félagaskrá skal varðveitt á skrifstofu félagsins og skal hún uppfærð reglulega með samanburði við þjóðskrá þannig að tryggt sé að félagsmenn séu skráðir í rétta deild félagsins. Heimilt er að færa skrána með rafrænum hætti. Nöfnum og heimilisföngum nýrra félaga skal bætt á félagaskrána um leið og þeir gerast félagar  og skuli þeir skráðir í þá deild sem þeir tilheyra samkvæmt 10. gr.

Um vörslu félagaskrár skal farið að gildandi lögum og almennum reglum um persónuvernd.

6. grein

Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg og sendast skrifstofu félagsins. Greiðist þá út stofnsjóðseign viðkomandi félagsmanns samkvæmt samþykktum þessum og í samræmi við ákvæði gildandi laga.

7. grein

Gangi félagsmaður úr félaginu á hann ekkert tilkall til annarra eigna félagsins en þeirra sem skráðar eru á nafn hans og varðveitast í stofnsjóði. Sú fjárhæð er einungis eign í stofnsjóði sem nemur aðildargjaldi á hverjum tíma.

Félagsmaður getur sætt brottvísun úr félaginu að ákvörðun stjórnar, ef hann verður ber að því að vinna vísvitandi gegn hagsmunum þess. Tilkynna skal félagsmanni brottvísun með sannanlegum hætti.  Félagsmaður er sætir brottvísun getur kært ákvörðun stjórnar til næsta aðalfundar til ógildingar.  

Fundarstjóri kynnir kærða ákvörðun og framkomna kæru áður en gengið er til dagskrár. Kærandi eða umboðsmaður hans gerir því næst stutta grein fyrir kröfum og rökstuðningi kæranda en stjórn eða umboðsmaður hennar gerir því næst grein fyrir kröfum og rökstuðningi stjórnar. Fundarstjóri ákvarðar ræðutíma en ekki verða andsvör eða umræður. Aðalfundur ógildir ákvörðunina með 2/3 hlutum greiddra atkvæða. Atkvæðagreiðsla verður ekki leynileg.

III.KAFLI

SKIPULAG FÉLAGSDEILDA

8. grein

Félagið skiptist í félagsdeildir, sbr. 10.gr. samþykkta þessara. Skal hver félagsmaður vera skráður í félagsdeild þar sem hann á lögheimili á hverjum tíma.

Þeir einstaklingar sem flutt hafa burt af félagssvæðinu geta áfram verið skráðir félagar KEA en skulu ekki vera skráðir félagar einstakra deilda, en hafa aðgang að fundum þeirrar félagsdeildar þar sem þeir áttu síðast lögheimili á félagssvæðinu - með málfrelsi og tillögurétti.

Stjórn staðfestir samþykktir fyrir starfsemi félagsdeilda í samræmi við samþykktir þessar.

9. grein

Hlutverk félagsdeilda er að vera vettvangur félagsmanna til fulltrúakjörs og til fundahalda og miðlunar upplýsinga. Skal félagsstjórn sérstaklega kappkosta að gera félagsdeildum mögulegt að starfa og láta til þess í té upplýsingar og gögn sem auðveldað geta félagsmönnum að hafa virk áhrif á skipulag, stefnu og starfshætti félagsins. Félagsstjórn skal veita öllum félagsmönnum greinargóðar upplýsingar um starfsemi félagsins og gæta þess að burtfluttir félagsmenn hafi aðgang að upplýsingum um málefni félagsins sem þá kann að varða sérstaklega.

10. grein

Á félagssvæðinu starfa fimm deildir;

Akureyrardeild sem í eru félagsmenn með lögheimili á Akureyri.

Út-Eyjafjarðardeild sem í eru félagsmenn með lögheimili í Dalvíkurbyggð, Fjallabyggð
og Hrísey og auk þess félagsmenn með lögheimili í Grímsey.

Vestur- Eyjafjarðardeild sem í eru félagsmenn úr Hörgársveit auk íbúa í Akrahreppi í Skagafirði sem eru félagsmenn í KEA.

Austur-Eyjafjarðardeild sem í eru félagsmenn með lögheimili í Svalbarðsstrandarhreppi og Grýtubakkahreppi og félagsmenn með lögheimili í Eyjafjarðarsveit.

Þingeyjardeild sem í eru félagsmenn með lögheimili austan Vaðlaheiðar að eystri sveitarfélagamörkum Skútustaðahrepps, Norðurþings og Langanesbyggðar eins og þau eru árið 2013.

11. grein

Í hverri deild skal halda aðalfund ár hvert áður en aðalfundur félagsins er haldinn og skal deildarstjórn í samráði við félagsstjórn hafa frumkvæði að fundarboðun. Aukafund skal halda, ef deildarstjórn telur þörf á eða 20% deildarmanna óska skriflega eftir því. Fundur er lögmætur ef hann er boðaður með minnst viku fyrirvara en mest fjögurra vikna fyrirvara. Á aðalfundi félagsdeildar skal félagsstjórn gera félagsmönnum grein fyrir hag félagsins og rekstri, og öðru því er máli skiptir. Á fundinum hafa allir félagsmenn innan deildar málfrelsi og atkvæðisrétt.

Deildarfundi skal jafnan auglýsa með opinberri auglýsingu og á heimsíðu félagsins. Dagskrá deildarfundar skal koma fram í fundarboði. Á fundum deilda hafa allir stjórnarmenn og varastjórnarmenn KEA málfrelsi og tillögurétt.

12. grein

Á aðalfundi deildar skal kosin deildarstjórn.

Í Akureyrardeild skal deildarstjórn skipuð 7 mönnum sem allir eru kosnir til þriggja ára. Deildarstjóri skal kosinn beinni kosningu samkvæmt tilnefningu og á hverju ári skulu kjörnir tveir aðalmenn í stjórn. Kjörnir skulu tveir varamenn í stjórn til eins árs í senn.

Í öðrum deildum með 1000 félagsmönnum eða fleiri skal kjörin 5 manna deildarstjórn en í deildum með færri en 1000 félagsmenn skal kjörin 3ja manna deildarstjórn. Deildarstjóri skal kosinn beinni kosningu samkvæmt tilnefningu - til þriggja ára. Meðstjórnendur skulu kosnir samkvæmt tilnefningu til þriggja ára og ennfremur skulu kosnir 2 varamenn til eins árs í senn. Stjórnin kýs varadeildarstjóra úr sínum hópi.

Hver félagsmaður er skyldur að taka kosningu í sinni deild til eins kjörtímabils og ef hann skorast ekki undan endurkosningu, má endurkjósa hann svo oft sem vill. Á aðalfundi deildarinnar skal deildarstjóri gera grein fyrir störfum sínum og starfsemi deildarstjórnar undanfarið ár.

13. grein

Störf deildarstjórna skulu einkum beinast að því að efla tengsl félagsmanna við félagið og fylgja eftir hagsmunum þeirra gagnvart stjórn félagsins. Jafnframt getur deildarstjórn haft frumkvæði að tillögugerð og umræðum sem snerta starfshætti, stefnumótun, markmiðssetningu og skipulag félagsins og hvernig félagið tekur þátt í eflingu búsetu, nýsköpun atvinnu og framþróun menningar og mannlífs á félagssvæðinu.

Deildarstjórnir skipa fulltrúaráð félagsins og skal félagsstjórn kalla fulltrúaráð saman til fundar og til upplýsingagjafar eigi sjaldnar en einu sinni á ári.

Félagið greiðir einstökum deildarstjórnum þóknun fyrir störf sín samkvæmt ákvörðun félagsstjórnar enda hafi skýrsla deildarstjóra borist til félagsstjórnar.

14. grein

Hver deild hefur rétt til að senda fulltrúa á aðalfundi og fulltrúafundi félagsins í réttu hlutfalli við félagafjölda þó þannig að fulltrúafjöldi einstakra deilda fari ekki yfir 50% heildarfjölda fulltrúa sem rétt eiga til fundarsetu .

Við ákvörðun um hlutfall fulltrúa hverrar deildar á aðalfund og fulltrúafund  skal miða við félagaskrá félagsins 7 dögum fyrir  fyrsta aðalfund deildar sbr. 2. mgr. 5.gr. Félagið greiðir fulltrúum þóknun fyrir fundarsetu samkvæmt ákvörðun félagsstjórnar.

IV. KAFLI

SKIPULAG FÉLAGSSTJÓRNAR OG FRAMKVÆMDASTJÓRN

15. grein

Fulltrúafundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins og tekur þær ákvarðanir um starfsemi félagsins, sem þörf er á. Á fulltrúafundi sitja mest 100 fulltrúar.

Kjörna fulltrúa á fulltrúafund skal boða skriflega og skulu fundargögn fylgja með fundarboði.  Stjórn boðar til aðalfundar með að minnsta kosti viku fyrirvara, að jafnaði eigi síðar en 30. apríl ár hvert.

Fulltrúafundur er lögmætur og ályktunarfær ef til fundarins er mættur helmingur þeirra fulltrúa sem þar eiga seturétt samkvæmt samþykktum þessum.

Heimilt er stjórn að boða til fulltrúafundar með einnar viku fyrirvara.

Almenna félagsfundi getur félagsstjórn boðað þegar henni þykir þess þörf. Stjórn er skylt að boða til fulltrúafundar ef þriðjungur kjörinna fulltrúa kallar eftir því og til félagsfundar ef meira en 10% félagsmanna krefjast þess skriflega og tilgreina fundarefni.

Nú hefur stjórnin eigi boðað til fundar innan 14 daga eftir að henni berst krafan og geta þá hlutaðeigendur snúið sér til ráðherra með ósk um að boðað sé til fundar.

Dagskrá skal jafnan greina í fundarboði, en fastir liðir á aðalfundi skulu vera:

Skýrsla stjórnar.

Skýrsla framkvæmdastjóra.

Tillögur félagsstjórnar um ráðstöfun hagnaðar eða taps.

Afgreiðsla reikninga og tillagna félagsstjórnar.

Skýrslur frá starfandi sjóðum og fagráðum skv. samþykktum þessum.

Erindi deilda

Kynning frambjóðenda til stjórnarkjörs.

Kosning stjórnar og löggilts endurskoðanda eða endurskoðunarfélags.

Kosning fulltrúa á aðalfund Sambands íslenskra samvinnufélaga (SÍS).

Þóknun stjórnar.

Önnur mál sem heyra undir aðalfund skv. félagssamþykktum.

Hver félagsmaður á rétt á því að fá mál tekið til meðferðar á aðalfundi ef hann gerir skriflega kröfu um það til félagsstjórnar með minnst tveggja vikna fyrirvara.

Á fundum félagsins eiga sæti, auk kjörinna deildarfulltrúa, félagsstjórnin, framkvæmdastjóri og endurskoðandi. Auk þess hafa allir félagsmenn frjálsan aðgang að fulltrúafundum með málfrelsi og tillögurétt, en fulltrúar einir hafa þar atkvæðisrétt. Úrslitum mála á félagsfundum ræður afl greiddra atkvæða, nema þar sem lög eða félagssamþykktir mæla fyrir um annað.

Heimil er notkun rafrænna skjalasamskipta og rafpósts í samskiptum milli félagsins og félagsmanna, þar með talið fulltrúa, í stað þess að senda eða leggja fram skjöl rituð á pappír. Nær heimildin til hvers kyns samskipta milli félagsins og félagsmanna svo sem um boðun félagsfunda eða annarra tilkynninga sem félagsstjórn ákveður að senda skuli til félagsmanna. Eru slík rafræn samskipti jafngild samskiptum á pappír. Skal félagsstjórn setja reglur um framkvæmd rafrænna samskipta, þ.m.t. hvar félagsmenn geta fundið upplýsingar um framkvæmd rafrænna samskipta og þær kröfur sem gerðar eru til tæknibúnaðar. 

Félagsmaður er sjálfur ábyrgur fyrir því að tilkynna félaginu um netfang sem hann óskar eftir að fá rafræn skeyti og tölvupósta senda til sem og breytingar á því.

Stjórn er heimilt að ákveða að félagsmaður geti tekið þátt í fundarstörfum félagsfunda með rafrænum hætti án þess að vera á fundarstað. Ákveði stjórn að nýta þessa heimild skal þess sérstaklega getið í fundarboði, þar sem jafnframt skal tilgreint hvernig félagsmenn geta borið sig að við fundarsókn.

Heimilt er að halda félagsfundi, þar með talið aðalfund, aðeins rafrænt. Skal tryggt að félagsmaður geti tekið þátt í fundarstörfum og atkvæðagreiðslu. Í fundarboði skal taka fram hvernig félagsmaður tilkynni þátttöku sína í fundinum og aðrar nauðsynlegar upplýsingar vegna þátttökunnar.

Heimildir til rafrænna samskipta og funda samkvæmt þessari grein gildir einnig fyrir deildarfundi.

16. grein

Stjórn félagsins skal skipuð 7 fullgildum félagsmönnum, sbr. 4. gr., sem kosnir eru til þriggja ára, og þremur varamönnum, sem kosnir eru til eins árs í senn. Kjósa skal stjórn félagsins þannig að eitt árið skulu kosnir þrír stjórnarmenn og næstu tvö ár tveir stjórnarmenn hvort ár. Varamenn skulu kosnir samkvæmt tilnefningu til eins árs og telst sá fyrsti varamaður, er flest atkvæði hlýtur, og annar varamaður sem næstflest atkvæði hlýtur. Ef tillaga um margfeldis- kosningu kemur fram, þurfa að minnsta kosti 20% fulltrúa á fundinum að samþykkja hana. Skal þá beita margfeldiskosningu við kjör stjórnarmanna og varastjórnarmanna félagsins.

Stjórnin kýs formann og varaformann úr sínum hópi til eins árs í senn.

Formaður kveður til stjórnarfunda og stjórnar þeim. Fund skal og jafnan halda ef einhver stjórnarmanna krefst þess. Stjórnarfundur er lögmætur, ef meira en helmingur stjórnarmanna er á fundi.

Úrslitum mála ræður afl atkvæða, en séu þau jöfn, ræður atkvæði formanns. Allar fundargerðir stjórnarinnar skulu ritaðar í gerðabók og staðfesta viðstaddir fundarmenn fundargerð með undirskrift sinni. Stjórn skal staðfesta nánari starfsreglur í samræmi við ákvæði laga og gildandi reglna á hverjum tíma.

Stjórnin boðar til fulltrúafunda og félagsfunda og undirbýr málefni þeirra, framkvæmir fundarályktanir og annast störf milli funda. Hún leggur fyrir aðalfund til úrskurðar endurskoðaða reikninga félagsins fyrir næsta ár á undan, hefur eftirlit með eignum félagsins, gætir hagsmuna þess í öllum greinum og getur leitað aðstoðar laga og réttar í málefnum félagsins, er þörf krefur.

Aðalfundur ákveður þóknun fyrir störf stjórnar yfirstandandi árs.

17. grein

Uppstillingarnefnd skal starfa á vegum félagsins.  Hún hefur þann tilgang að tryggja að nægjanlega margir einstaklingar séu í framboði til stjórnarkjörs félagsins þannig að tryggt verði að stjórn sé fullmönnuð.  Í uppstillingarnefnd sitja formenn deilda félagsins og kjósa þeir formann nefndarinnar sem jafnframt er talsmaður hennar.  Nefndin skal hefja störf eigi síðar en einum mánuði fyrir aðalfund félagsins. Heimilt er uppstillingarnefnd að gera tillögu um röð varamanna, sbr. 1. mgr. 16. gr.   Ef fleiri eru í framboði en til kjörs skal uppstillingarnefndin safna nöfnum viðkomandi einstaklinga saman og leggja fyrir aðalfund en ekki gera tillögu.

18. grein

Félagsstjórn ræður framkvæmdastjóra félagsins til að annast allan daglegan rekstur og hafa yfirumsjón með eignavörslu þess svo og samstarfi um stofnun og rekstur fyrirtækja með eignaraðild félagsins. Félagsstjórn gerir við hann starfssamning. Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur félagsins og skal í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og ákvörðunum, sem stjórnin hefur samþykkt. Hinn daglegi rekstur tekur ekki til ráðstafana, sem eru óvenjulegar eða mikils háttar. Slíkar ráðstafanir getur framkvæmdastjóri aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild frá stjórninni eða að höfðu samráði við stjórnarformann, ef ekki er unnt að bíða ákvarðana frá stjórninni án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi félagsins. Í slíkum tilfellum skal stjórninni tilkynnt tafarlaust um ráðstöfunina.

19. grein

Allir þeir samningar sem stjórnin eða framkvæmdastjóri gera fyrir hönd félagsins samkvæmt samþykktum þessum eða ályktunum fulltrúafunda eru bindandi fyrir félagsheildina og hvern einstakan félagsmann.

Stjórnarmenn, fjórir saman, rita firma félagsins.

V. KAFLI

REIKNINGAR OG ENDURSKOÐUN

20. grein

Aðalfundur kýs einn löggiltan endurskoðanda eða endurskoðunarfélag.

Endurskoðandi rannsakar reikninga, starfrækslu og allan hag félagsins. Hann gefur aðalfundi skýrslu um störf sín. Endurskoðandi skal hafa aðgang að öllum bókum og reikningum félagsins á hvaða tíma sem er.

Reikningsár félagsins er almanaksárið. Á aðalfundi skal ávallt leggja fram endurskoðaða reikninga félagsins og taka ákvörðun um þá.

21. grein

Tekjuafgangi í ársreikningi félagsins ráðstafar aðalfundur samkvæmt ákvæðum laga og samþykktum félagsins. Heimilt er með samþykki aðalfundar að færa tekjuafgang að nokkru leyti eða öllu til næsta árs.

VI. KAFLI

SJÓÐIR OG VELTUFÉ

22. grein

Minnst tíu hundraðshluta þess hagnaðar, sem ekki fer til þess að jafna tap fyrri ára og ekki er greiddur út eða lagður í lögbundna sjóði, skal heimilt að leggja í varasjóð félagsins uns varasjóður nemur tíu hundraðshlutum af fjárhæð stofnsjóðs. Þegar varasjóður nemur 10% af fjárhæð stofnsjóðs skulu framlög í varasjóð vera allt að fimm hundraðshlutar hagnaðar þar til varasjóðurinn nemur einum fjórða hluta af fjárhæð stofnsjóðs.

23. grein

Í stofnsjóð félagsins rennur inngangseyrir félagsmanna. Stofnsjóðseign félagsmanna skal koma til útborgunar í neðangreindum tilvikum:

a) við andlát félagsmanns

b) við brottflutning félagsmanns af félagsvæðinu, enda gangi hann úr félaginu

c) að ósk félagsmanns þegar hann hefur náð 70 ára aldri - enda gangi hann úr félaginu (sbr.4.grein).

Einnig er heimilt samkvæmt samþykktum þessum að greiða út stofnsjóð við úrsögn félagsmanns enda hafi hann staðið skil á uppgjöri sínu við félagið.

Stofnsjóðseign er ekki framseljanleg og stendur ekki til fullnustu fjárkröfum skuldheimtumanna.

24. grein

Félagið ráðstafar þeim fjármunum sem það fær í arð af eignum sínum og með sölu eigna beint og óbeint til félagsmanna og til nýrra fjárfestinga í samræmi við stefnu félagsins, samþykktir fulltrúafunda og ákvarðanir stjórnar á hverjum tíma. Skal stjórn félagsins kynna fjárfestingarstefnu á aðalfundi ár hvert

25. grein

Aðalfundur getur ákveðið að nýta heimild í lögum til að hækka séreignarhlut félagsmanns í stofnsjóð og greiða þá hækkun út að tillögu stjórnar. Við slíka ákvörðun þarf aukinn meirihluta og þurfa 2/3 fulltrúa á aðalfundi að samþykkja slíka tillögu. Aldrei má þó greiða út með þeim hætti meira en sem svarar 10% af eigin fé félagsins árlega - og skal þá miða hlutfallið við eignastöðu hinn 31.12. næstliðinn.

VII. KAFLI

BREYTINGAR Á SAMÞYKKTUM, SLIT O.FL.

26. grein

Tillögu um að slíta félaginu má bera upp á lögmætum fulltrúafundi og skal hún hljóta samþykki 2/3 hluta fulltrúa tvo fundi í röð, en hana ber auk þess að leggja fyrir til atkvæðagreiðslu félagsmanna á deildarfundum milli fulltrúafunda og skal hún hljóta samþykki meira en 2/3 félagsmanna viðkomandi deildar á hverjum deildarfundi fyrir sig  áður en til slita félagsins getur komið í samræmi við gildandi lög.

Nú eru slit félagsins samþykkt í samræmi við það sem að ofan segir.

Þegar allar skuldbindingar hafa verið inntar af hendi í samræmi við gildandi lög skulu eignir félagsins sem til skipta koma renna til sjálfseignarstofnunar sem ráðstafar arði af eignum sínum til menningar-, mennta, líknar- íþrótta og æskulýðsmála á félagssvæðinu.

Um ráðstöfun fer nánar samkvæmt ákvörðun félagsfundar eða þess aðila sem falið er að ganga frá slitum félagsins.

27. grein

Heimilt er stjórn félagsins að setja reglugerðir um einstaka sjóði og starfssvið hjá félaginu. Skal í slíkum samþykktum setja skýr ákvæði um starfssvið og ábyrgð sem og þær takmarkanir sem gilda skulu um ráðstöfun fjármuna.

28. grein

Samþykktum þessum verður ekki breytt nema á löglega boðuðum fulltrúafundi. Til þess að ná samþykki þarf slík breytingartillaga að hljóta 2/3 hluta atkvæða á fundinum nema lög eða félagssamþykktir mæli fyrir um annað. Heimilt er fyrir atkvæðagreiðslu að endurtelja atkvæðisbæra fulltrúa á fundinum.

Þegar leggja á fyrir fulltrúafund tillögur um breytingar á félagssamþykktum, skal kynning hafa farið fram á fyrirhuguðum breytingum í öllum deildum félagsins og einnig skal þeirra getið með greinargóðum hætti í fundarboði fulltrúafundar .

Þannig samþykkt á aðalfundi KEA 27. maí 2021

Samþykktir fyrir starfsemi félagsdeilda KEA - í samræmi við samþykktir félagsins

1. grein

Allir lögráða einstaklingar sem eiga lögheimili á félagssvæðinu geta orðið fullgildir félagsmenn í KEA. Einstaklingar undir lögræðisaldri, sem búsettir eru á félagssvæðinu, geta einnig orðið félagsmenn með ábyrgð forráðenda sinna og þeim takmörkunum varðandi trúnaðarstörf sem lög ákvarða. Til þess að öðlast kjörgengi og atkvæðisrétt á deildafundi verður félagsmaðurinn að hafa verið skráður félagsmaður í KEA í a.m.k. tvo mánuði.

2. grein

Félagið skiptist í félagsdeildir, sbr. 10. gr. samþykkta KEA. Skal hver félagsmaður vera skráður í félagsdeild þar sem hann á lögheimili á hverjum tíma. Þeir einstaklingar sem flutt hafa burt af félagssvæðinu geta áfram verið skráðir félagar KEA en skulu ekki vera félagar einstakra deilda en hafa aðgang að fundum þeirrar félagsdeildar þar sem þeir áttu síðast lögheimili á félagssvæðinu - með málfrelsi og tillögurétti.

3. grein

Hlutverk félagsdeilda er að vera vettvangur félagsmanna til fulltrúakjörs og til fundahalda og miðlunar upplýsinga. Skal félagsstjórn sérstaklega kappkosta að gera félagsdeildum mögulegt að starfa og láta til þess í té upplýsingar og gögn sem auðveldað geta félagsmönnum að hafa virk áhrif á skipulag, stefnu og starfshætti félagsins. Félagsstjórn skal veita öllum félagsmönnum greinargóðar upplýsingar um starfsemi félagsins og gæta þess að burtfluttir félagsmenn hafi aðgang að upplýsingum um málefni félagsins sem þá kann að varða sérstaklega.

4. grein

Á félagssvæðinu starfa fimm deildir;

Akureyrardeild sem í eru félagsmenn með lögheimili á Akureyri.

Út-Eyjafjarðardeild sem í eru félagsmenn með lögheimili í Dalvíkurbyggð, Fjallabyggð, Siglufirði og Hrísey og auk þess félagsmenn með lögheimili í Grímsey.

Vestur- Eyjafjarðardeild sem í eru félagsmenn úr Hörgársveit auk íbúa í Akrahreppi í Skagafirði sem eru félagsmenn í KEA.

Austur-Eyjafjarðardeild sem í eru félagsmenn með lögheimili í Svalbarðsstrandarhreppi og Grýtubakkahreppi og félagsmenn með lögheimili í Eyjafjarðarsveit.

Þingeyjardeild sem í eru félagsmenn með lögheimili austan Vaðlaheiðar að eystri sveitar-félagamörkum Skútustaðahrepps, Norðurþings og Langanesbyggðar eins og þau eru árið 2013.

5. grein

Í hverri deild skal halda aðalfund ár hvert - áður en aðalfundur félagsins er haldinn og skal deildarstjórn í samráði við félagsstjórn hafa frumkvæði að fundarboðun. Aukafund skal halda, ef deildarstjórn telur þörf á eða 20% deildarmanna óska skriflega eftir því. Deildarfundur er lögmætur ef hann er boðaður með opinberri auglýsingu með tveggja sólarhringa fyrirvara, en aðalfund deildar skal boða með viku fyrirvara. Á aðalfundi félagsdeildar skal félagsstjórn gera félagsmönnum grein fyrir hag félagsins og rekstri, fyrirhuguðum framkvæmdum og öðru því er máli skiptir. Á fundinum hafa allir félagsmenn innan deildar málfrelsi og atkvæðisrétt. Deildarfundi skal jafnan boða með opinberri auglýsingu og á heimasíðu félagsins. Dagskrá deildarfundar skal koma fram í fundarboði. Á fundum deilda hafa allir stjórnarmenn og varastjórnarmenn KEA málfrelsi og tillögurétt.

6. grein

Á aðalfundi deildar skal kosin deildarstjórn.

Í Akureyrardeild skal deildarstjórn skipuð 7 mönnum sem allir eru kosnir til þriggja ára. Deildarstjóri skal kosinn beinni kosningu samkvæmt tilnefningu og á hverju ári skulu kjörnir tveir aðalmenn í stjórn. Kjörnir skulu tveir varamenn í stjórn til eins árs í senn.

Í öðrum deildum með 1000 félagsmönnum eða fleiri skal kjörin 5 manna deildarstjórn en í deildum með færri en 1000 félagsmenn skal kjörin 3ja manna deildarstjórn. Deildarstjóri skal kosinn beinni kosningu samkvæmt tilnefningu. Meðstjórnendur skulu kosnir samkvæmt tilnefningu til þriggja ára og ennfremur skulu kosnir 2 varamenn til eins árs í senn. Stjórnin kýs varadeildarstjóra úr sínum hópi.

Hver félagsmaður er skyldur að taka kosningu í sinni deild til eins kjörtímabils og ef hann skorast ekki undan endurkosningu, má endurkjósa hann svo oft sem vill. Á aðalfundi deildarinnar skal deildarstjóri gera grein fyrir störfum sínum og starfsemi deildarstjórnar undanfarið ár.

7. grein

Störf deildarstjórna skulu einkum beinast að því að efla tengsl félagsmanna við félagið og fylgja eftir hagsmunum þeirra gagnvart stjórn félagsins. Jafnframt getur deildarstjórn haft frumkvæði að tillögugerð og umræðum sem snerta starfshætti, stefnumótun, markmiðssetningu og skipulag félagsins og hvernig félagið tekur þátt í eflingu byggðafestu, nýsköpun atvinnu og framþróun menningar og mannlífs á félagssvæðinu.

Deildarstjórnir skipa fulltrúaráð félagsins og skal félagsstjórn kalla fulltrúaráð saman til fundar og til upplýsingagjafar eigi sjaldnar en einu sinni á ári.

Félagið greiðir einstökum deildarstjórnum þóknun fyrir störf sín samkvæmt ákvörðun félags-stjórnar enda hafi skýrsla deildarstjóra borist til félagsstjórnar.

8. grein

Hver deild hefur rétt til að senda fulltrúa á aðalfundi og fulltrúafundi félagsins, þannig að fyrir hverja 100 deildarmenn eða byrjaða þá tölu er einn fulltrúi. Deildarstjóri er sjálfkjörinn fyrsti fulltrúi, en aðrir fulltrúar skulu kosnir eftir tilnefningu á aðalfundi deildarinnar til eins árs í senn.

Félagið greiðir fulltrúum þóknun fyrir fundarsetu samkvæmt ákvörðun félagsstjórnar.

9. grein

Aðalfundur deildar og/eða deildarstjórn getur kallað til samstarfs um málefni deildarinnar og félagsins hvern þann félagsmann sem á lögheimili á starfssvæði deildarinnar. Þannig getur aðalfundur eða deildarstjórn stofnað til nefndarstarfa og starfshópavinnu - eftir því sem félagsmenn gefa kost á slíku. Ekki stofnast þó greiðsluskylda hjá félaginu vegna slíkra starfa nema um slíkt hafi verið samið fyrirfram við aðalstjórn félagsins og/eða framkvæmdastjóra í umboði stjórnar.

10. grein

Deildir hafa ekki sjálfstæða tekjustofna - en eigur þeirra varðveitast í umboði deildarstjórnar og með aðstoð skrifstofu félagsins í samráði við framkvæmdastjóra.

Deildarstjóri ber ábyrgð á fjárreiðum deildar og uppgjöri - en kostnaður vegna reglulegrar starfsemi deilda, svo sem aðalfunda og þeirra funda sem boðað er til að frumkvæði félagsstjórnar, skal greiða af félaginu. Skrifstofa KEA annast uppgjör fyrir deildir og greiðir kostnað vegna reglulegrar starfsemi deildarstjórna - þar með talinn kostnað við fundi í fulltrúaráði félagsins. Um tilhögun fastra funda og ferða á vegum deildarstjórna skal deildarstjóri hafa samráð við skrifstofu félagsins og leita samstarfs um aukafundi og aðra starfsemi sem getur haft kostnað í för með sér.

Þannig samþykkt á aðalfundi KEA 27. maí 2021