Á fjórða tug hugmynda bárust í nýsköpunarsamkeppni Upphafs

Fjárfestingafélagið Upphaf ehf. kynnti í apríl síðastliðnum nýsköpunarsamkeppni sem félagið efndi til. Upphaf er fjárfestingarfélag í eigu KEA sem sinnir framtaks- og nýsköpunarverkefnum og tekur meðal annars þátt í þróun og útfærslu viðskiptahugmynda, frumframleiðslu og fyrstu skrefum markaðssetningar.Bjarni Hafþór Helgason, framkvæmdastjóri Upphafs, segir markmið félagsins með þessari samkeppni að leita eftir vænlegum fjárfestingakostum fyrir Upphaf og hvetja frumkvöðla til að koma hugmyndum sínum á framfæri. Umsóknarfrestur rann út þann 10. maí síðastliðinn og bárust á fjórða tug hugmynda frá þrjátíu aðilum í samkeppnina.  Dómnefnd mun yfirfara öll gögn sem bárust og er sú vinna þegar hafin. Til stendur að veita verðlaun fyrir þrjár bestu hugmyndirnar og er stefnt að því að niðurstöður liggi fyrir innan fárra vikna.