Tap KEA 128 mkr á síðasta ári

Á aðalfundi félagsins í gær kom fram að tap varð á rekstri félagsins á síðasta ári upp á 128 milljónir króna en hagnaður var 656 milljónir króna árið áður.  Hreinar fjárfestingatekjur námu tæpum 73 milljónum króna og lækkuðu umtalsvert á milli ára.  Eigið fé um síðustu áramót var tæpir 7,8 milljarðar króna og heildareignir rúmir 8,3 milljarðar á sama tíma.  Eiginfjárhlutfall er um 94%.

Félagið metur eignir sínar til gangvirðis í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaða en það þýðir að afkoma félagsins ræðst af breytingu á verðmæti eignarhluta félagsins í fyrirtækjum en ekki af hlutdeild í afkomu þeirra.

Afkoma fyrirtækja sem KEA á eignarhluti í versnaði að jafnaði frá fyrra ári og endurspeglast það í um 91 milljóna króna neikvæðri gangvirðisbreytingu fjáreigna og var ávöxtun þess eignaflokks því óásættanleg.  Þar skiptir mestu almennt versnandi ytri skilyrði, hækkað kostnaðarstig og verri samkeppnishæfni.

Á árinu fjárfesti félagið m.a. í auknum eignarhlutum í Norlandair, Ferro Zink og Jarðböðunum. Einnig var aukið við fjárfestingar í fjárfestingasjóðnum TFII, Sjóðböðunum og Sparisjóði Höfðhverfinga, ásamt því að fjárfest var í undirbúningi hótelverkefnis á Akureyri.  Eignarhlutur félagsins í Ásbyrgi Flóru var seldur á árinu. 

Félagsmönnum KEA heldur áfram að fjölga og eru þeir nú tæplega 21 þúsund eða um 54% allra íbúa á félagssvæði KEA sem eru Eyjafjarðar- og Þingeyjasýslur.

Á aðalfundi félagsins í gærkvöldi voru Jóhann Ingólfsson og H. Rut Jónsdóttir kosin í aðalstjórn félagsins.