Af málefnum Vísindagarðs við HA

Horft yfir Akureyri.
Horft yfir Akureyri.
Á ársfundi Háskólans á Akureyri í gær var kynnt staða mála við undirbúning Vísindagarða við skólann, en KEA hefur m.a. komið þar að málum. Benedikt Sigurðarson, formaður stjórnar KEA, flutti erindi á ársfundinum um Vísindagarða og í hvaða farvegi undirbúningur þess máls væri.Benedikt sagðist telja að Vísindagarðar við Háskólann á Akureyri gæti orðið öflug stoð til að sækja nýtt fjármagn – til og í samstarfi við viðskiptalífið. Einnig gæti hann orðið öflugur bakhjarl sjálfstæðrar starfsemi á sviði kennslu, þróunar og rannsókna, sem fjármögnuð væri með styrkjum og stuðningi frá fjölþjóðlegum stofnunum og sjóðum – frá EFTA, ESB og SÞ. Fyrir Háskólann á Akureyri sagðist Benedikt telja að Vísindagarður gæti undirbyggt það markmið Háskólans á Akureyri að verða leiðandi stofnun við þekkingar- og hæfnisuppbyggingu í landinu. Vísindagarður muni styðja við skipulagða uppbyggingu rannsókna og samstarfsverkefna háskólans og gefa tilefni til markvissrar uppbyggingar opinberra rannsóknastofnana og eftirlitsstofnana. Vísindagarðar styðji við hlutverk háskólans í að miðla þekkingu til atvinnulífsins í þeim tilgangi að efla samkeppnishæfni og geti þar með margfaldað hraða þekkingaryfirfærslu. Þá geti nærvera fyrirtækja verið mikilvægur stuðningur við vissar deildar háskólans – t.d. heilbrigðis- og kennaradeild sem og upplýsingatæknideild. Benedikt rifjaði upp að Frumkvöðlasetur Norðurlands hafi verið stofnað árið 2001 og HA tekið að sér vistun þess árið 2003. Í júní sl. var hlutverki Frumkvöðlasetursins breytt og það fékk nafnið Þekkingarvörður ehf. Athugun á stofnun vísindagarðs var lögð inn í það félag. Núverandi eigendur Þekkingarvarðar ehf. eru KEA (Urðir), Samtök Iðnaðarins, Iðnaðarráðuneytið, Impra, Nýsköpunarsjóður, Tækifæri, Akureyrarbær, Háskólinn á Akureyri, Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar og Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga. Hlutverk þessa félags er að vinna að því að byggja upp þekkingarþorp við Háskólann á Akureyri og efla nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi. Benedikt sagðist telja að stuðningur við atvinnuþróun og nýsköpun þurfi að verða markvissari og beinast skýrar að svæðisbundnu frumkvæði og sjálfstæði í þróun. Hann sagðist telja að vísinda- og eða fyrirtækjagarður gæti orðið vettvangur til þess að stilla saman krafta og setja í einn svæðisbundinn farveg. Erindi Benedikts (PPT-skyggnur) er að finna á slóðinni: http://staff.unak.is/not/bensi/Visindagardar14-12-05.pps