Afkoma jákvæð um 721 milljónir árið 2021

Á aðalfundi KEA sem fram fór í gærkvöldi kom fram að afkoma KEA á síðasta ári var jákvæð um 721 milljón króna í samanburði við 326 milljónir króna árið áður.  Hreinar fjárfestingatekjur námu um 942 milljónum króna og hækkuðu um rúmar 400 milljónir króna milli ára.  Eigið fé er um 8,9 milljarðar og heildareignir um 9,2 milljarðar.

Á árinu samþykkti félagið tilboð í 67% eignarhlut í dótturfélagið Tækifæri hf., en stærstu eignir þess félags eru Jarðböðin í Mývatnssveit og Sjóböðin á Húsavík.  KEA á eftir söluna 5% í félaginu, sem nú heitir Norðurböð.  Vegna heimsfaraldurs var velta nýrri verkefna minni en oft áður, en fyrir utan framangreind viðskipti var fjárfest í 15% hlut í Stefnu hugbúnaðarhúsi á Akureyri.  Þá var áfram stutt við þau félög sem félagið hefur þegar fjárfest í sem og unnið að framþróun og eflingu annarra eignarhluta félagsins. Eftir sölu á eignarhlut í Tækifæri á félagið umtalsvert laust fé til fjárfestinga og verður markvisst leitað nýrra verkefna á næstu misserum.

Jóhann Ingólfsson og H. Rut Jónsdóttir voru endurkjörin í stjórn félagsins.