Breytingar á eignarhaldi og starfsemi Ásprents

Útgáfufélagið ehf. sem er að 67% í eigu KEA hefur keypt miðlastarfsemi Ásprents en undir hana fellur útgáfa á Dagskránni, Skránni og Vikublaðinu. Verða miðlarnir gefnir út í sömu mynd og verið hefur og mun Ásprent annast prentun þeirra.

Samhliða þessum kaupum mun Ísafoldarprentsmiðja koma inn í hluthafahóp Ásprents með kaupum á hluta af  eignarhlut KEA í félaginu. Með tilkomu Ísafoldarprentsmiðju í hluthafahóp Ásprents verður til öflugri þjónustuaðili í prenti sem getur boðið fjölbreyttari lausnir í prentþjónustu sem byggir á áralangri reynslu og þekkingu beggja.  Markmiðið með viðskiptunum er að hagræða og styrkja félögin og mæta þannig betur kröfum markaðarins. Eftir viðskiptin á KEA 16% eignarhlut í Ásprenti.

Ásprent-Stíll var stofnað í núverandi mynd árið 2003 með sameiningu Ásprents og auglýsingastofunnar og skiltagerðarinnar Stíls. Síðan þá hafa fleiri prent- og útgáfufyrirtæki sameinast fyrirtækinu og má þar nefna Alprent, Límmiða Norðurlands, Vikudag, Skarp, Prenttorg og Stell.