Breytt skipulag KEA

Stjórn KEA hefur breytt skipulagi félagsins á þann hátt að áhersla er lögð á einstakar fjárfestingategundir í stað þess að leggja áherslur á einstök fjárfestingarfélög sem eru í eigu KEA.  Fjárfestingaflokkar hafa verið skilgreindir og eru þeir einkafjármögnun (private equity), framtaksfjármögnun (venture capital), innviðafjárfestingar (infrastructure investments) og stöðutaka (capital market activities). 

Í fyrra skipulagi fjallaði stjórn KEA ekki um fjárfestingalegar ákvarðanir en nú verður breyting á.  Öll kjarnastarfsemi KEA, þ.e.a.s. fjármála-  og fjárfestingastarfsemi félagsins verður á hendi KEA og Hildingur ehf. verður ekki lengur rekið  sem dótturfélag KEA með sjálfstæðri starfsemi og stjórn.  Starf framkvæmdastjóra Hildings hefur verið lagt niður og því samhliða tekið upp nýtt starf fjárfestingastjóra KEA.   Starf fjárfestingastjóra KEA felst í greiningu, öflun og umsýslu einkafjármögnunarverkefna.   Bjarni Hafþór Helgason verður fjárfestingastjóri KEA en hann var áður framkvæmdastjóri Hildings ehf. 

Stjórn KEA hefur einnig breytt fjárfestingastefnu KEA.  Breytingarnar felast aðallega í því að fjárfestingar í skráðum og óskráðum hlutabréfum fá aukið vægi í eignasafni KEA.  Þessi breyting eykur áhættu í rekstri og um leið sveiflur í afkomu félagsins.

KEA er fjárfestingarfélag sem vinnur í þágu eigenda sinna að eflingu atvinnulífs og búsetuskilyrða á starfssvæði sínu.