EBITDA-hagnaður Norðlenska 268,7 milljónir

Samkvæmt rekstrarniðurstöðu fyrir árið 2006, sem var staðfest af stjórn Norðlenska í gær, hefur orðið umtalsverður bati í rekstri fyrirtækisins milli ára. EBITDA-hagnaður – fyrir fjármagnsliði, skatta, afskrift fastafjármuna og viðskiptavildar – er 268,7 milljónir króna, sem er 40 milljónum króna hærri EBITDA-hagnaður en árið 2005.

Heildartekjur fyrirtækisins á árinu 2006 – rekstrartekjur og aðrar tekjur – námu 3.034 milljónum króna. Þetta er í fyrsta skipti sem ársvelta Norðlenska er yfir þremur milljörðum króna. Hagnaður fyrirtækisins eftir afskriftir og vexti var 18,6 milljónir króna.
Ársstörf hjá Norðlenska á síðasta ári voru 185.

“Afkoman er mjög í takt við okkar væntingar og áætlanir. Reksturinn er í góðu jafnvægi og ég vil segja að fyrirtækið sé á góðri siglingu. Norðlenska er stærsta fyrirtæki landsins í slátrun og mjög stórt í úrvinnslu og sölu á lambakjöti,” segir Sigmundur E. Ófeigsson, framkvæmdastjóri Norðlenska.

Varðandi horfur í rekstrinum segir Sigmundur að ríkið hafi skapað nokkra óvissu í kjötvinnslu með afléttingu tolla og auknum innflutningi landbúnaðarvara. Þá segir hann að ákvörðun um afnám útflutningsskyldu skapi einnig óvissu.
“Það eru framleidd á annað þúsund fleiri tonn af lambakjöti en innlendi markaðurinn hefur tekið við. Hins vegar eru vinsældir lambakjötsins aftur að aukast og því er að minnka bilið á milli framleiðslu og neyslu lambakjöts. Vissulega voru töluvert miklar birgðir af lambakjöti í landinu um áramót og það er ákveðið áhyggjuefni. Hins vegar er þessi staða fljót að breytast ef sumarið verður gott. Hagstætt sumar þýðir mikla neyslu á grillkjöti og þar með aukna sölu á lambakjöti. Það er því erfitt að segja til um núna hvort auka þurfi útflutningsskyldu í haust,” segir Sigmundur.

Stjórnendur Norðlenska hafa markað þá stefnu að auka fullvinnslu vara. “Við viljum svara auknum kröfum neytenda um meira og meira tilbúnar vörur. Við höfum þegar náð mjög góðum árangri á þeim markaði og sjáum enn frekari sóknarfæri þar. Það er mín bjargfasta skoðun að þegar val neytenda stendur um íslenskar eða innfluttar landbúnaðarvörur velji  neytendur innlendu afurðirnar,” segir Sigmundur E. Ófeigsson.

Aðalfundur Norðlenska hefur verið ákveðinn 16. apríl nk.