Félagsmenn KEA sextán þúsund

Undanfarin þrjú ár hefur félagsmönnum KEA fjölgað jafnt og þétt og svo er nú komið að þeir eru orðnir 16 þúsund talsins. Halla Stefánsdóttir á Akureyri reyndist vera 16 þúsundasti félagsmaðurinn og af því tilefni afhenti framkvæmdastjóri KEA, Halldór Jóhannsson, henni KEA kortið sitt með formlegum hætti. 
Einnig fékk Halla góðar gjafir frá samstarfsaðilum KEA kortsins; Býflugan og blómið færði henni blómvönd, hún fékk 20 þúsund króna gjafabréf frá Olís, 10 þúsund króna gjafabréf frá Nettó og Bosch borvél frá BYKO.

Halldór segist ákaflega ánægður með þessa þróun; „Síðustu 3 ár hafa félagsmenn KEA ríflega tvöfaldast. Það hafa um 9 þúsund einstaklingar á félagssvæði KEA gengið í félagið s.l. 3 ár. Samsetning félagsmanna hefur breyst mikið, meira er um að yngra fólk gangi í félagið en áður og er það vel, tæplega helmingur íbúa svæðisins eru félagsmenn í KEA. Samstarfsaðilar okkar hafa verið mjög ánægðir með virkni og notkun KEA kortsins sem er víðtæk og almenn. Mikill áhugi er meðal fyrirtækja að gerast aðilar að KEA kortinu. KEA kortið er einnig hægt að fá sem debet- og kreditkort en þetta er eina kort þessarar tegundar þar sem afsláttur fæst strax við viðskipti. Allt er þetta hvatning fyrir okkur til að halda áfram að reyna að þjónusta félagsmenn okkar sem best, bæði í gegnum rekstur félagsins og með eflingu KEA kortsins,“ sagði Halldór.

Halla var að vonum ánægð með þær móttökur sem hún fékk á skrifstofu KEA. Hún sagðist lengi hafa ætlað sér að gerast félagsmaður en látið loks verða af því þegar hún þurfti að fá sér ný gleraugu. Halla sagðist hafa séð það á netinu að hún gæti fengið afslátt á gleraugum í Geisla á Glerártorgi ef hún væri með KEA kort og að það hafi orðið til þess að hún lét loks verða af því að ganga í félagið.