Fimm nýir starfsmenn hjá Saga Capital

Á undanförnum vikum hafa fimm nýir starfsmenn verið ráðnir til starfa hjá Saga Capital fjárfestingabanka. Alls eru 35 manns starfandi hjá bankanum nú en hann tók til starfa fyrir um hálfu ári . Eins og kunnugt er eru höfuðstöðvar bankans á Akureyri  í Gamla barnaskólanum Hafnarstræti 53 en útibú í Reykjavík í Þóroddstöðum við Bústaðaveg.

Andrea Pálína Helgadóttir hefur verið ráðin til starfa á fjármálasviði Saga Capital þar sem hún sinnir ýmsum bókhaldsstörfum, svo sem bókunum á gjaldeyrishreyfingum vegna fjárstýringar auk annarra bakvinnslustarfa tengdum fjárstýringu. Andrea er með BS-gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri og hefur síðustu sjö árin unnið hjá Flugfélagi Íslands við upplýsingamiðlun og þjónustustörf. Maki Andreu er Aðalsteinn Ólafsson, hagþróunarfræðingur.

Baldur Snorrason er nýr starfsmaður á sviði eigin viðskipta Saga Capital og mun sinna hefðbundnum stöðutökum í hlutabréfum, skuldabréfum og afleiðum. Baldur er með MBA-gráðu frá Copenhagen Business School og er sjávarútvegsfræðingur frá Háskólanum á Akureyri. Baldur var áður framkvæmdastjóri hjá beituverksmiðjunni Aðlöðun hf. þar sem hann sá um endurskipulagningu rekstrarins og endurfjármögnun fyrirtækisins. Þar áður starfaði hann við gæðamál, fjármál og vöruþróun hjá Hraðfrystistöð Þórshafnar. Baldur er í sambúð með Kristínu Ýri Pétursdóttur og eiga þau tvö börn.

Hólmfríður Sara Friðjónsdóttir er starfsmaður á fjármálasviði Saga Capital og starfar þar meðal annars við flutning á verðbréfahreyfingum frá undirkerfum yfir í fjárhagsbókhald, afstemmingar, uppgjör og ýmis bókhaldsstörf tengd fjárstýringu bankans. Hólmfríður er með B.Ed.-próf í grunnskólakennarafræði með áherslu á kennslu hugvísinda og tungumála. Hún hefur unnið ýmis bókhaldsstörf og starfaði meðal annars hjá Verði tryggingum hf. og Kennaraháskóla Íslands þar sem hún var deildarstjóri nemendaskrár. Hólmfríður á tvær dætur.

Sumarliði G. Helgason er umsjónarmaður tölvu- og tæknimála Saga Capital og starfar á sviði áhættustýringar innan bankans. Sumarliði heldur utan um viðhald og þróun upplýsingakerfa Saga Capital, stýrir innleiðingum nýrra kerfa og fer fyrir öryggismálum bankans. Sumarliði er með B.Sc.-próf í tölvunarfræði frá Háskólanum á Akureyri. Hann vann áður sem þjónustustjóri við sölu, innleiðingar og almenna verkstýringu, meðal annars fyrir Skrín ehf., Skýrr hf. og síðast Símann hf. Sumarliði er kvæntur Soffíu Gunnlaugsdóttur og eiga þau tvo syni.

Þórleifur Stefán Björnsson er forstöðumaður í fjárstýringu og viðskiptaþróun hjá Saga Capital. Hann fæst við dagleg viðskipti á millibankamarkaði, þar með eru talin innlán og lántökur á íslenskum peninga- og skuldabréfamarkaði og alþjóðlegum peningamarkaði. Þórleifur er með meistarapróf í stjórnmálafræði og alþjóðlegum samskiptum með áherslu á evrópsk efnahagsmál frá Maxwell School of Citizenship and Public Affairs í Syracuse-háskóla. Hann starfaði síðast sem forstöðumaður RES, The School for Renewable Energy Science og þar áður sem forstöðumaður Rannsóknasviðs Háskólans á Akureyri. Þar byggði Þórleifur upp svið sem annaðist rannsóknastjórnsýslu háskólans og miðlun upplýsinga til háskólaráðs og stjórnvalda. Jafnframt vann hann að uppbyggingu alþjóðlegra samskipta háskólans. Þórleifur er kvæntur Rósu Mjöll Heimisdóttur. Þau eiga fjögur börn.