Formleg opnun og opið hús hjá Saga Capital

Saga Capital Fjárfestingarbanki verður formlega opnaður í dag, föstudag, þegar Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra klippir á borða og vígir höfuðstöðvar bankans í Gamla barnaskólanum á Akureyri. Þetta gamla og glæsilega skólahús er ríflega hundrað ára gamalt og friðað að utan en hefur nú fengið nýtt hlutverk eftir gagngerar endurbætur. Saga Capital er alþjóðlegur fjárfestingarbanki, stofnaður af nokkrum fyrrverandi starfsmönnum íslensku viðskiptabankanna og völdum fagfjárfestum.

Bankinn hóf starfsemi í maí á þessu ári. Hann veitir þjónustu á sviði fyrirtækjaráðgjafar, útlána og verðbréfamiðlunar til fyrirtækja og fagfjárfesta og tekur líka virkan þátt á innlendum og erlendum verðbréfamörkuðum með fjárfestingum fyrir eigin reikning. Töluvert umrót hefur verið á alþjóðlegum fjármálamörkuðum undanfarnar vikur en Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga Capital, segir að þessar sveiflur skapi kjörin tækifæri fyrir hinn unga banka. "Þetta eru góðir tímar til að ýta starfseminni úr vör, gott tækifæri til að koma inn á markaðinn enda við höfum komið vel út úr þeim gjörningaveðrum sem geysað hafa á fjármálamörkuðum að undanförnu," segir Þorvaldur.

Saga Capital hefur vaxið hratt frá því hugmyndin kviknaði hjá stofnendum bankans fyrir tæpu ári síðan. Nú starfa 30 manns hjá Saga Capital, bæði á Akureyri og í Reykjavík, og sérfræðingar bankans vinna að verkefnum í níu löndum, allt frá Bandaríkjunum til Mið-Austurlanda. Að baki bankanum stendur breiður hópur alls 80 hluthafa, bæði fagfjárfesta og fyrirtækja, sem endurspegla flest svið íslensks atvinnulífs. Enginn einstakur hluthafi á yfir 12 prósent hlutafjár. Saga Capital er aðili að öllum norrænu OMXkauphöllunum og stefnir að skráningu hlutabréfa félagsins í kauphöll.

Í tengslum við Akureyrarvöku vilja starfsmenn Saga Capital bjóða þér að heimsækja bankann frá klukkan 12 til 16. Hljómsveitin Tepokinn leikur djasstónlist fyrir gesti, sýndar verða gamlar og nýjar ljósmyndir af starfsemi, íbúum og viðgerðarsögu Gamla barnaskólans og boðið er upp á leiðsögn um þetta sögufræga hús sem gengið hefur í endurnýjun lífdaga.

Var raunverulegt gull í gullstéttinni fyrir framan skólahúsið? Hvaða illdeilur leiddu til þess að skólinn var settur niður á þessum stað? Hvað var Davíð Stefánsson að sýsla í húsinu? Hörður Geirsson hjá Minjasafni Akureyrar leiðir gesti í allan sannleikann og sýnir húsið og umhverfi þess, klukkan 13 og klukkan 15.