Frost tekur að sér stórt verkefni í Færeyjum

Kælismiðjan Frost ehf. hefur samið við Vestmanna Fiskavirki p/f um hönnun, afhendingu og uppsetningu á frysti og kælibúnaði fyrir nýja fiskvinnslu og 3000 tonna frystigeymslu í Vestmanna í Færeyjum.

Í vinnslunni verður heilfrystur ufsi og gulllax og eru áætluð afköst allt að 80 tonnum á sólarhring.

Auk þess að útvega kælibúnaðinn hafði Frost umsjón með hönnun og sölu á byggingum sem hýsa munu frystigeymsluna og hluta starfseminnar. Þetta er liður í því að bjóða viðskiptavinum heildarlausnir og sem víðtækasta þjónustu.

Framkvæmdir við byggingarnar eru þegar hafnar. Unnið verður að uppsetningunni af starfsmönnum Kælismiðjunnar Frost og færeyska félagsins p/f Frost, sem er að hluta til í eigu Frost.