Hagnaður KEA 227 milljónir

Hagnaður KEA á síðasta ári nam 227 milljónum eftir reiknaða skatta en var 279 milljónir árið áður.  Tekjur námu 400 milljónum króna og lækkuðu um 45 milljónir á milli ára.  Heildareignir félagsins voru  tæpir 5,2 milljarðar og eigið fé var tæplega 4,9 milljarðar í lok tímabilsins.  Fjárhagsleg staða félagsins er sterk.

Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóri
„Afgerandi neikvæð áhrif á uppgjör þessa árs er niðurfærsla að hluta á eignarhlut félagsins í norska fasteignafélaginu City Center Properties.  Aðrar eignir félagsins skiluðu ásættanlegri niðurstöðu á síðasta ári. Rekstur félaga sem KEA á eignarhluti í gekk heilt yfir ágætlega þó svo staða þeirra sé vissulega misjöfn.  Ég tel þetta vera þolanlega niðurstöðu sér í lagi á þeim tímum sem að erfitt er að ná fram raunávöxtun á laust fé.  Líkt og á síðasta ári hefur ekki verið um auðugan garð að gresja hvað fjárfestingavalkosti varðar.
KEA kortið er á flugi eins og áður og beinn arður félagsmanna af kortinu er um 350-450 milljónir króna á ári.  Sé sá arður lagður við rekstrarniðurstöðu síðasta árs er ljóst að heildararðsemi félagsmanna var vel viðunandi á síðasta ári“.