Hagnaður KEA 276 milljónir króna

Samkvæmt óendurskoðuðu bráðabirgðauppgjöri KEA fyrir árið 2009 sem kynnt hefur verið fulltrúaráði félagsins nam hagnaður eftir skatta 276 milljónum króna. Hagnaður fyrir reiknaða skatta á sama tímabili nam 300 milljónum króna.  Heildareignir félagsins nema rúmlega 4,3 milljörðum króna og er félagið nánast skuldlaust.  Eigið fé var rúmir 4,1 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall var 96%.
Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóri segist sáttur við niðurstöðuna.  „Markmið okkar með hressilegri niðurfærslu á árinu 2008 var að taka strax til í okkar efnhagsreikningi vegna þeirra hamfara sem hér dundu yfir.  Við metum það svo að við þurfum á þessum tímapunkti ekki að færa eignir okkar frekar niður frá því sem við gerðum í árslok 2008.  Eins og áður erum við varfærin í okkar eignamati.  Þó þetta séu bráðabirgðatölur vænti ég ekki breytinga í endanlegu uppgjöri félagsins. Ég er ánægður með það hve vel rekstur margra fyrirtækja sem KEA á eignarhluti í gengur þrátt fyrir krefjandi aðstæður, en eins og Íslendingar þekkja vel er enn mikil óvissa uppi um mjög marga þætti í okkar efnahagslífi.  Tekjur félagsins hafa minnkað með lækkandi vaxtastigi þar sem stórt hlutfall eigna félagsins eru peningalegar eignir.  Afkoman tekur einnig mið af því að reynt hefur verið að vernda eignir félagsins á kostnað ávöxtunar á meðan mesta óvissan líður hjá.  Lausafjárstaða félagsins er mjög góð og efnahagslegur styrkleiki einnig.