Hagnaður KEA 356 milljónir króna fyrir skatta

Samkvæmt samstæðuársreikningi félagsins fyrir árið 2006 sem stjórn hefur samþykkt var hagnaður félagsins 356 milljónir króna fyrir reiknaða skatta en 287 milljónir króna eftir reiknaða skatta.  Heildareignir félagsins í lok síðasta árs námu 5,4 milljörðum króna og var eigið fé félagsins á sama tímapunkti rúmir 4,5 milljarðar króna.  Eiginfjárhlutfall félagsins var 84%.  Félagið greiddi á árinu rúmar 40 milljónir króna í arð til félagsmanna. 

Á árinu keypti KEA umtalsverða eignarhluti í Sandblæstri og Málmhúðun og er einn stofnenda og kjölfestueigenda í SAGA Capital fjárfestingarbanka.  Í september á síðasta ári sameinaðist dótturfélagið Upphaf ehf. við Tækifæri hf. undir nafni og merkjum þess síðarnefnda en eignarhlutur KEA í sameinuðu félagi er 34%.  Einnig keypti KEA á árinu minni eignarhluti í fyrirtækjum, s.s. Kælismiðjunni Frost, Miðlun og Slippnum Akureyri.  KEA á fyrir umtalsverða eignarhluti í Norðlenska, Ásprent Stíl og Þekkingu.

Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóri KEA telur uppgjörið viðunandi m.t.t. aðstæðna á fjármála- og fjármagnsmörkuðum og þeirrar fjárfestingastefnu sem félagið fylgir.  Um síðustu áramót var stór hluti eigna félagsins bundinn í eignaflokkum sem gefa fastar tekjur s.s. á peningamarkaði.  Síðasta ár einkenndist af umróti og óróa á íslenskum fjármálamarkaði það ástand hafði mikil áhrif á veltu og umsvif fjárfestingaverkefna.  Stærri fjárfestingaverkefni félagsins ganga vel og undirliggjandi rekstur í samræmi við áætlanir.