Hagnaður KEA 656 milljónir

Á aðalfundi félagsins í gær kom fram að hagnaður KEA á síðasta ári nam 656 milljónum króna eftir reiknaða skatta en var 943 milljónir árið áður.  Hreinar fjárfestingatekjur námu tæpum 858 milljónum króna og lækkuðu um 257 milljónir á milli ára.  Eigið fé um síðustu áramót var tæpir 7,9 milljarðar króna og heildareignir rúmir 8,3 milljarðar á sama tíma.  Eiginfjárhlutfall er um 95%.

Flest þeirra fyrirtækja sem KEA á eignarhluti í gengu ágætlega á síðasta ári og endurspeglast það í um 505 milljóna króna jákvæðri gangvirðisbreytingu fjáreigna og var ávöxtun fjárfestingaeigna ásættanleg á síðasta ári.  Á árinu fjárfesti félagið m.a. í félögunum TFII, Matsmiðjunni, Saga Travel, Sparisjóði Suður-Þingeyinga sem og jók við fjárfestingar sínar í Sjóböðunum á Húsavík og Sparisjóði Höfðhverfinga.  Jafnframt var fjárfest í undirbúningi hótelverkefnis á Akureyri.  Eignarhlutir félagsins í norsku fasteignafélagi og Hreinsitækni voru seldir á árinu.  Arðsemi eigenda félagsins er ásættanleg sé einnig horft til þeirra viðskiptakjara sem eigendur félagsins njóta í gegnum KEA kortið en áætluð afkoma af þeim viðskiptakjörum er 500 milljónir króna umfram reikningshaldslega afkomu félagsins á síðasta ári.

Félagsmönnum KEA heldur áfram að fjölga, vel umfram íbúaþróun á félagssvæði sínu  og eru þeir nú  20.500 eða um 53% allra íbúa á félagssvæði KEA sem eru Eyjafjarðar- og Þingeyjasýslur.

Á aðalfundi félagsins í gær voru Guðlaug Kristinsdóttir og Eiríkur H. Hauksson kosin í stjórn félagsins.