Hagnaður KEA 81 mkr. á síðasta ári

Stjórn félagsins hefur samþykkt ársreikning félagsins fyrir síðasta ár en þar kemur fram að hagnaður varð af rekstri félagsins á síðasta ári upp á 81 milljón króna en tap var upp á 128 milljónir króna árið áður. Hreinar fjárfestingatekjur námu rúmum 280 milljónum króna og hækkuðu á milli ára. Eigið fé um síðustu áramót var tæpir 7,9 milljarðar króna, heildareignir tæpir 8,1 milljarðar á sama tíma og eiginfjárhlutfall samstæðunnar var 97%.

Félagið metur eignir sínar til gangvirðis í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla en það þýðir að afkoma félagsins ræðst af breytingu á verðmæti eignarhluta félagsins í fyrirtækjum en ekki af hlutdeild í afkomu þeirra.

Afkoma fyrirtækja sem KEA á eignarhluti í var mjög breytileg á síðasta ári en heildarmat um verðmætabreytingu á þeim eignum var neikvætt og ávöxtun þess eignaflokks því óviðunandi. Ávöxtun lausafjár var viðunandi og afkoma af fasteignum viðunandi utan gjaldfærslu vegna aflagningar áforma um byggingu hótels á Akureyri. Covid-19 heimsfaraldurinn sem hófst í upphafi árs hefur haft mikil áhrif fyrirtæki og hagkerfi. Umtalsverð óvissa ríkir um efnahagsleg áhrif faraldursins. Félagið á eignarhluti í nokkrum félögum sem tengjast ferðaþjónustu og ljóst er að faraldurinn getur haft töluverð áhrif á þá starfsgrein sem og tengdar greinar. Vegna hinnar miklu óvissu er afar erfitt á þessum tímapunkti að leggja mat á þau áhrif sem faraldurinn muni hafa á rekstur félaganna til lengri tíma litið og þar með verðmæti þeirra.

Á árinu fjárfesti félagið m.a. í SBA-Norðurleið og jók við eignir sínar í SPSH, SPSÞ, Sjóböðum og N4.

Vegna sóttvarnarreglna hefur ekki verið hægt að halda aðalfund félagsins.