Hagnaður síðasta árs nam 546 mkr.

Á aðalfundi félagsins sem fram fór í gærkvöldi kom fram að 546 milljóna króna hagnaður varð af rekstri félagsins á síðasta ári. Hreinar fjárfestingatekjur voru 767 mkr. og lækkuðu um 175 mkr. á milli ára. Eigið fé var tæpir 8,8 milljarðar og heildareignir námu tæpum 9,1 milljarði. Fjárhagsstaða félagsins er sterk.

Eftir sölu á 67% eignarhlut í Tækifæri hf. var lausafjárstaða félagsins óvenju há á árinu en ávöxtunarvalkostir lausafjár voru lítt arðgefandi á síðasta ári vegna erfiðra skilyrða á verðbréfamörkuðum. Fjárfest var á árinu í nýsköpunarfyrirtækjunum Mýsköpun og hinu Norðlenzka Styrjufélagi. Jafnframt var fjárfest í Niceair.

Þrátt fyrir litla arðsemi af lausu fé var arðsemi af fjárfestingafasteignum viðunandi og heilt yfir gekk fyrirtækjum sem KEA á eignarhluti í ágætlega og afkoma af þeim eignaflokki viðunandi þó svo töluverður breytileiki hafi verið í afkomuþróun einstakra fyrirtækja.

Áfram er unnið að því að endurfjárfesta það lausafé sem fékkst við söluna á Tækifæri hf. í upphafi ársins.

Hildur Ösp Gylfadóttir, Pétur Snæbjörnsson og Kristinn Rúnar Tryggvason voru kjörin í stjórn félagsins.