Hildingur, dótturfélag KEA, kaupir fjórðungshlut í Hreinsitækni

Fram til þessa hefur Hreinsitækni verið í eigu einstaklinga, en nýlega gekk Hildingur, dótturfélag KEA frá kaupum á fjórðungshlut í félaginu. Með innkomu Hildings í félagið er lagður grunnur að frekari umsvifum Hreinsitækni. Hreinsitækni  hefur eignast allt hlutafé í Holræsahreinsun.  Félögin verða sameinuð undir nafni Hreinsitækni.  Nýtt og sameinað félag ræður yfir mjög öflugum og sérhæfðum tækjakosti til að þjónusta gatna- og lagnakerfi  sveitarfélaga, fyrirtækja og einstaklinga.

Með sameiningunni verður til leiðandi fyrirtæki á Íslandi þegar kemur að slíkri þjónustu.  Hreinsitækni er félag sem starfað hefur í rúm þrjátíu ár og Holræsahreinsun  í rúm tuttugu og fimm ár. Bæði félögin hafa verið leiðandi á sínu sviði.  Mikil samlegðaráhrif nást við sameiningu félaganna tveggja. Höfuðstöðvar, viðhaldsþjónusta og skrifstofur hafa þegar verið sameinaðar og eru til húsa í sérhönnuðu húsnæði að Stórhöfða 37.

Með sameiningunni verður til félag sem er mun stærra en sést hefur áður á þessum vettvangi á Íslandi. Sameinað félag sérhæfir sig meðal annars í myndun og hreinsun lagna og niðurfalla, stíflulosunum, hreinsun rotþróa,  þrifum og þvotti á stéttum, bílastæðum, götum, hreinsun eftir olíuslys ofl. Félagið sinnir í dag á fjórða tug sveitarfélaga í öllum landshlutum. Mest eru umsvifin á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Tækjafloti sameinaðs félags telur tæplega 40 tæki sem öll eru sérhæfð til að tryggja sem besta þjónustu. Sameinað félag hefur yfir starfsmönnum að ráða sem búa yfir afar víðtækri og langri reynslu.  Hjá sameinuðu félagi koma til með að starfa um 40 starfsmenn.

 „Þetta eru afar stór skref sem við höfum stigið núna á stuttum tíma. Með þessari sameiningu verður til stærsta félag á þessu sviði á Íslandi. Umhverfismál skipta sífellt meira máli, ekki aðeins hin sýnilegu á yfirborðinu, heldur ekki síður þau sem varða frárennsliskerfi í jörðu.  Fyrirtækið getur nú boðið öfluga samþætta þjónustu á báðum þeim sviðum sem félagið sérhæfir sig í fyrir sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklinga.  Afkoma Hreinsitækni hefur verið góð og með frekari umsvif í huga er afar mikilvægt fyrir okkur að fá inn sterkan hluthafa á borð við Hilding. Innkoma Hildings gefur félaginu aukið svigrúm til að huga að frekari fjárfestingum á þessu sviði.“  Segir Lárus K. Jónsson framkvæmdastjóri Hreinsitækni ehf.       

Bjarni Hafþór Helgason framkvæmdastjóri Hildings. segir að Hreinsitækni sé mjög vel rekið og spennandi félag. Það starfi í grein sem eigi mikla vaxtarmöguleika, ekki síst í ljósi þess að kröfur varðandi hreinsun og þrifnað eru að stóraukast og framundan er barátta við svifryksmengun, sem Hreinsitækni hefur leitt fram til þessa.  "Með samrunanum við Holræsahreinsun er hið sameinaða félag orðið leiðandi á þessu sviði á Íslandi."