Hildingur ehf kaupir 44% hlut í Sandblæstri og málmhúðun hf

Frá vinstri:  Helgi Gústafsson, framkvæmdastjóri Ferro Zink, Bjarni Hafþór Helgason, framkvæmdastjór…
Frá vinstri: Helgi Gústafsson, framkvæmdastjóri Ferro Zink, Bjarni Hafþór Helgason, framkvæmdastjóri Hildings, Tómas Ingi Jónsson, framkvæmdastjóri Sandblásturs og málmhúðunar og Jón Dan Jóhannsson
Fjárfestingarfélagið Hildingur ehf. hefur keypt 44% hlut í Sandblæstri og málmhúðun hf. og er nú stærsti hluthafinn í félaginu.  Tveir stjórnendur hjá félaginu hafa aukið sinn eignarhlut og eiga 18% hvor, það eru Tómas Ingi Jónsson, fjármálastjóri félagsins og Helgi Gústafsson, framkvæmdastjóri Ferro Zink, sem er dótturfélag Sandblásturs og málmhúðunar í Hafnarfirði.Jón Dan Jóhannsson, framkvæmdastjóri, mun láta af störfum en eiga áfram 20% hlut í félaginu og sitja í stjórn þess.  Tómas Ingi Jónsson tekur við starfi framkvæmdastjóra.
“Sandblástur- og málmhúðun er afar traust og öflugt félag með farsæla rekstrarsögu.  Við teljum sóknarfæri í starfsemi félagsins á ýmsum sviðum.  Nýr framkvæmdastjóri mun taka við stjórnartaumunum en við munum áfram njóta starfskrafta fráfarandi framkvæmdastjóra, sem tekur sæti í stjórn félagsins.  Félagið hefur getið sér gott orð fyrir gæði og góða þjónustu og við stefnum á að efla starfsemi þess enn frekar”, segir Bjarni Hafþór Helgason, framkvæmdastjóri Hildings.
Tómas Ingi Jónsson, sem tekur við starfi framkvæmdastjóra hjá félaginu, telur þessar breytingar á eignarhaldinu styrkja félagið.  “Það skiptir miklu máli fyrir okkur að fá að starfseminni öflugan fjárfesti eins og Hilding, það styrkir innviði félagsins og gerir það betur í stakk búið til að takast á við ný verkefni í framtíðinni.  Starfsemin hefur vaxið umtalsvert á hverju ári og við sjáum ekki annað en framhald geti orðið á því.  Það verða væntanlega engar stórar breytingar í starfseminni en nýjum mönnum fylgja þó alltaf nýir siðir og áherslur munu eitthvað breytast.  Það eru þegar á borðinu hugmyndir um ný skref, bæði hvað varðar innri og ytri vöxt félagsins og við sjáum ekkert annað en spennandi tíma framundan,” segir Tómas Ingi Jónsson.
Sandblástur og málmhúðun hf. var stofnað á Akureyri árið 1960.  Félagið hefur vaxið jafnt og þétt og starfsmenn eru yfir 60 talsins.  Félagið þjónar einstaklingum og málmiðnaðarfyrirtækjum og eru helstu þættir í starfseminni stálsmíði, zinkhúðun, stálsala og sala á vörum tengdum málmiðnaði.  Framleiðsluvörur eru m.a. ljósastaurar, vegrið og girðingar svo fátt eitt sé nefnt.  Aðalstarfsemin fer fram við Árstíg 6 á Akureyri þar sem er verslun, stálsmíði og zinkhúðun.  Dótturfélagið Ferro Zink, sem staðsett er að Hjallahrauni 2 í Hafnarfirði, rekur verslun með stál og vörur tengdar málmiðnaði, auk þess að vera þjónustustöð fyrir zinkhúðun.