Hildingur kaupir eignarhlut í Frost

Á myndinni hampa þeir færeyska fánanum, Bjarni Hafþór Helgason, framkvæmdastjóri Hildings og Gunnar …
Á myndinni hampa þeir færeyska fánanum, Bjarni Hafþór Helgason, framkvæmdastjóri Hildings og Gunnar Larsen, framkvæmdastjóri Frosts.
Kælismiðjan Frost ehf. hefur eignast þriðjungs hlut í fyrirtækinu P/f Frost í Færeyjum og hafa félögin samið um náið samstarf í framtíðinni.  Jafnframt hefur Hildingur ehf. keypt sig inn í Fjárfestingarfélagið Sylgju ehf. sem á 20% hlut í Kælismiðjunni Frosti.  Aðrir eigendur Kælismiðjunnar Frosts eru starfsmenn hjá félaginu, sem eiga 60% hlut og Fjárfestingafélagið Fjörður ehf. sem á 20% hlut. 

P/f Frost er staðsett í Þórshöfn í Færeyjum og var stofnað árið 2001.  Félagið er annað af tveimur helstu fyrirtækjunum sem starfa í kæliiðnaði í Færeyjum.  Gunnar Larsen, framkvæmdastjóri Kælismiðjunnar Frosts, segir að með kaupum á þessum eignarhlut skapist ýmsir möguleikar fyrir bæði félögin.  “Þetta verður mjög sterk og samkeppnishæf eining sem mun nýta sér þekkingu og tengsl P/f Frosts á færeyska markaðnum og áralanga reynslu og þekkingu Kælismiðjunnar Frosts á hönnun, uppsetningu og þjónustu við stærri iðnaðarkerfi,” segir Gunnar.
Bjarni Hafþór Helgason, framkvæmdastjóri Hildings, segir Kælismiðjuna Frost áhugaverðan fjárfestingarkost og áform félagsins spennandi.  “Það sem einkennir Kælismiðjuna Frost er góður hópur starfsmanna sem er að byggja upp sterkt fyrirtæki í kæliðiiðnaði.  Það er afar traust fagþekking í félaginu, tækifæri til vaxtar eru bæði innanlands og utan og fjárfestingin í Færeyjum er mjög jákvætt skref í starfsemi félagsins,” segir Bjarni Hafþór.  Eins og áður segir keypti Hildingur sig inn í Fjárfestingarfélagið Sylgju en stofnandi þess og eini eigandi fram að þessu er Óskar Þórðarson, stjórnarformaður Kælismiðjunnar Frosts.
P/f Frost í Færeyjum hefur sérhæft sig í uppsetningu og þjónustu við minni frysti- og kælikerfi og hefur reksturinn gengið mjög vel frá upphafi.  Félagið mun nú útvíkka starfsemi sína og bjóða alla þjónustu vegna iðnaðarkerfa í Færeyjum, á sama hátt og Kælismiðjan Frost hefur gert á Íslandi um árabil.
Kælismiðjan Frost er stærst íslenskra fyrirtækja í uppbyggingu og þjónustu á kælikerfum fyrir útgerðar- og matvælavinnslufyrirtæki og er með þjónustudeildir á tveimur stöðum; á Akureyri og við Stangarhyl í Reykjavík.  Félagið hefur hannað, sett upp og þjónustað kælikerfi fyrir flest stærri fyrstihús landsins, allar helstu frystigeymslur, ísverksmiðjur, rækjuverksmiðjur, kjöt- og mjólkurvinnslur, kæli- og frystikerfi um borð í fjölda fiskisskipa.