Hildingur með 25% hlut í SAGA – nýju fyrirtæki á fjármálamarkaði með höfuðstöðvar á Akureyri

Hildingur ehf., dótturfélag KEA, er kjölfestufjárfestir í nýjasta fyrirtækinu á íslenskum fjármálamarkaði, sem hefur hlotið nafnið SAGA og verður það með höfuðstöðvar á Akureyri. Gert er ráð fyrir að starfsemi félagsins hefjist vorið 2007.

 

Hildingur ehf. er með 25% hlut í SAGA.  Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, sem hefur verið ráðinn forstjóri félagsins, er sömuleiðis með 25% hlut, Sparisjóður Norðlendinga og Sparisjóður Svarfdæla með 13% hlut hvor og fjárfestar, m.a. starfsmenn og lykilstjórnendur félagsins, með samtals 24% hlut. Stofnhlutafé í SAGA er 2 milljarðar króna, en við það er miðað að auka það í 4 milljarða á næstu átján mánuðum.  Undirbúningur er þegar hafinn við að sækja um leyfi til fjárfestingabankastarfsemi hjá Fjármálaeftirlitinu.

SAGA munu leggja áherslu á sérvalin verkefni á fyrirtækjamarkaði. Þar má nefna stöðutöku á innlendum og erlendum verðbréfamörkuðum, samruna og yfirtökur, fjárfestingalán og útlán/meðfjármögnun og ennfremur mun félagið verða viðskiptavaki með hlutabréf og skuldabréf. 

“Ég tel að öll ný atvinnustarfsemi sé góð fyrir þetta svæði og gildir þá einu hver hún er. Allt sem eykur fjölbreytni í atvinnulífinu hér er jákvætt. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að hér séu ákveðin sóknarfæri í fjármálageiranum, sem felast nákvæmlega í því sem þessi fjárfestingabanki kemur til með að takast á við,” segir Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA og stjórnarformaður Hildings.  “Þetta verkefni hefur verið í undirbúningi hjá KEA í að verða 1 ár og í það hefur verið varið töluverðum tíma og ég er mjög ánægður með það hvernig til hefur tekist.  Verkefni sem þetta er háð því að til verkefnisins ráðist reynslumikið og hæft starfsfólk og ég tel að skútan sé vel mönnuð.  Það er okkar mat að þetta verkefni sé einfaldlega góður fjárfestingarkostur fyrir KEA og það verði síður en svo vandkvæði við að leysa þetta verkefni á Akureyri því fjármagn hefur engin landamæri.  Það er okkar markmið að SAGA verði orðið gildandi fyrirtæki á íslenskum fjármálamarkaði innan fimm ára og það tel ég vera raunhæft,” segir Halldór Jóhannsson.

Sem fyrr segir er Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson forstjóri hins nýstofnaða félags, en hann var áður framkvæmdastjóri eigin viðskipta hjá KB banka. Aðrir helstu lykilstjórnendur félagsins hafa þegar verið ráðnir og eiga það sammerkt að hafa víðtæka reynslu af íslenskum og alþjóðlegum fjármálamarkaði. Gert er ráð fyrir að starfsmenn félagsins verði tíu til að byrja með.

Í fréttatilkynningu sem SAGA sendu frá sér í gær, miðvikudaginn 4. október, þegar félagið var kynnt á Akureyri, segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson að markmið með stofnun þess séu skýr. “Í fyrsta lagi munum við veita samkeppnishæfa þjónustu á völdum sviðum fjármála. Í öðru lagi hyggjumst við veita hluthöfum okkar framúrskarandi ávöxtun með virkri stýringu og áhættumati yfir lengra tímabil. Í þriðja lagi munum við styðja við hluthafa okkar og verkefni á þeirra vegum og síðast en ekki síst er markmiðið að verða viðurkennt afl á íslenskum fjármálamarkaði innan fimm ára.”