KEA aðalbakhjarl HSÞ og styrktaraðili landsmóts UMFÍ

Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir á Laugum í Þingeyjarsveit vegna Unglingalandsmóts UMFÍ sem haldið verður þar um verslunarmannahelgina.  Í tengslum við endurbyggingu frjálsíþróttavallarins hafa HSÞ og KEA gert með sér samkomulag um stuðning KEA við frjálsíþróttastarf HSÞ. Stuðningurinn felst í því að KEA gefur allan  nauðsynlegan búnað á völlinn til að hægt sé að að stunda þar æfingar og keppni við besta aðbúnað. "Þessi aðkoma KEA er einstaklega höfðingleg og gerir okkur kleyft að opnna þennan völl með glæsibrag og ekki síður er okkur mikilvægt að eignast svona sterkan bakhjarl frjálsíþróttastarfs okkar sem stendur nú með miklum blóma." segir Arnór Benónýsson formaður HSÞ.  
Mest hefur verið lagt í að endurbyggja Frjálsiþróttavöllinn og verður hann lagður gerfiefni frá ítalska fyrirtækinu Mondo. Eins er verið að reisa nýtt vallarhús við völlinn sem er 144 fm að grunnfleti og að hluta til á tveimur hæðum. Útbúnir hafa verið 6 minni knattspyrnuvellir auk tjaldstæða og risið er á staðnum 1300 fm tjald sem hýsa mun bæði keppni og kvöldvökur.
Framkvæmdum hefur miðað vel og ljóst að allt verður til búið í tæka tíð og að ekkert verður að vanbúnaði að halda glæsilegt mót.