KEA aðili að stofnun Bjarma líknarfélags ehf.

Við undirritun stofnssamnings Bjarma líknarfélags á Akureyri í dag. Frá vinstri: Þorvaldur Ingvarsso…
Við undirritun stofnssamnings Bjarma líknarfélags á Akureyri í dag. Frá vinstri: Þorvaldur Ingvarsson, fulltrúi FSA, Bryndís Þórhallsdóttir, fulltrúi Minningarsjóðs Heimahlynningar á Akureyri, Örn Arnar Óskarsson, fulltrúi Sparisjóðs Norðlendinga, Benedik
Í dag, fimmtudaginn 29. desember, var stofnað á Akureyri Bjarmi líknarfélag ehf., sem er undirbúningsfélag að byggingu líknardeildar á Akureyri. Í framhaldi af stofnun félagsins er gert ráð fyrir að finna húsinu stað í bænum og setja af stað hönnunarvinnu, þannig að framkvæmdir geti hafist sem fyrst.Við það er miðað að hús líknardeildarinnar verði sem næst 350 fermetrar að stærð með sex rýmum. Áætlaður kostnaður við byggingu hússins og kaup á nauðsynlegum búnaði er um 80 milljónir króna. Gert er ráð fyrir að líknarfélög (lionsklúbbar í umdæmi 109 B – svæði 7 og 8, sem er Eyjafjörður og Suður-Þingeyjarsýsla, Soroptimastaklúbbur Akureyrar og Oddfellowstúkur á Akureyri) standi að baki allt að 40% byggingarkostnaðar og Kaupfélag Eyfirðinga og Sparisjóður Norðlendinga munu einnig leggja verkefninu lið fjárhagslega. Kaupfélag Eyfirðinga hefur þegar lagt fram eina milljón króna til nauðsynlegrar undirbúningsvinnu. Auk framangreindra aðila koma að stofnun Bjarma líknarfélags ehf. Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og Minningarsjóður Heimahlynningar á Akureyri. Á Akureyri hefur lengi verið brýn þörf á að byggja upp deild fyrir líknandi meðferð. Sem stendur fer líknarmeðferð fram á bráðadeildum Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri og í heimahúsum. Af ýmsum ástæðum fer starfsemi bráðadeilda sjúkrahúsa og líknandi meðferð ekki vel saman. Líknandi meðferð krefst annars umhverfis en unnt er að bjóða upp á á bráðadeildum og meðferðin er á margan hátt frábrugðin starfsemi bráðadeilda. Líknardeildir eru sérhannaðar með þarfir mikið veikra og deyjandi sjúklinga í huga og gera auk þess ráð fyrir fjölskyldum þeirra. Á líknardeild koma sjúklingar til mislangrar dvalar og fara svo aftur heim eða eru þar til yfir lýkur. Hér er ekki eingöngu um að ræða sjúklinga með krabbamein heldur einnig með aðra langvinna ólæknandi sjúkdóma svo sem langvinna lungnateppu, hjartabilun, nýrnabilun og ýmsa taugasjúkdóma. Undanfarin ár hefur starfsfólk Heimahlynningar á Akureyri annast líknandi meðferð í heimahúsum á Akureyri og nágrenni. Náist um það samningar við heilbrigðisyfirvöld og Tryggingastofnun er stefnt að því að Heimahlynning taki að sér rekstur líknardeildarinnar. Jafnframt mun Heimahlynning sinna hjúkrunarþjónustu í heimahúsum, eins og verið hefur. Alþingi hefur þegar samþykkt heimild á fjárlögum 2006 til kaupa eða leigu á húsnæði fyrir líknardeild á Akureyri. Í stjórn Bjarma líknarfélags ehf. eru Benedikt Sigurðarson, stjórnarformaður KEA, formaður, Örn Arnar Óskarsson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Norðlendinga, varaformaður, Bjarni Jónasson, fulltrúi Oddfellowstúkanna á Akureyri, ritari, Árni V. Friðriksson, fulltrúi Lionsklúbbanna í umdæmi 109 B – svæði 7 og 8, meðstjórnandi og Anna M. Helgadóttir, fulltrúi Soroptimistaklúbbs Akureyrar, meðstjórnandi. Varamenn í stjórn eru Bryndís Þórhallsdóttir, fulltrúi Minningarsjóðs Heimahlynningar á Akureyri, og Þorvaldur Ingvarsson, fulltrúi Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri.