KEA einn af stofnaðilum Starfsendurhæfingar Norðurlands

Starfsendurhæfing Norðurlands hefur undirritað þjónustusamning við Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið um starfsendurhæfingu fyrir 21 einstakling á ári, sá samningur er til þriggja ára.Markmið starfsendurhæfingarinnar er að bjóða fólki með skerta starfsgetu, af ýmsum orsökum, uppá starfsendurhæfingu. Starfsendurhæfingin er heildstæð lausn á vanda hvers þátttakanda. Unnið er með heilbrigðs-, félags- og sálræna þætti auk þess sem boðið er uppá nám á framhaldsskólastigi.

Starfsendurhæfing Norðurlands er sjálfseignastofnun sem stofnuð var þann 9. febrúar í kjölfar þess að skapaður var samstarfsvettvangur stofnana sem sinnt hafa endurhæfingarrmálum. Vaxtarsamningur Eyjafjarðarsvæðis hafði forgöngu um að slíkur samstarfsvettvangur yrði skapaður en stofnframlag Starfsendurhæfingar er greitt af Vaxtarsamningnum annars vegar og KEA hins vegar. Stofnendur eru; Akureyrarbær, Félags- og skólaþjónusta Þingeyinga, Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, Framhaldsskólinn á Húsavík, Heilbrigðistofnun Þingeyinga , KEA, Lífeyrissjóður Norðurlands, Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar, og Svæðisvinnumiðlun Norðurlands eystra.

Geirlaug G. Björnsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri og er starfsemi hafin.

 

Auk þess sem KEA og Vaxtarsamningurinn leggja fram stofnframlag leggja þær stofnanir sem að Starfsendurhæfingunni koma fram fagþekkingu. Fjármögnun er þó alls ekki lokið og munu aðstandendur Starfsendurhæfingar Norðurlands halda áfram þeirri vinnu í samvinnu við ríkisvaldið, lífeyrissjóði og verkalýðsfélög svo eitthvað sé nefnt.

 

Þjónusta sem þessi er mjög verðmæt fyrir nærsamfélagið og þjóðfélagið í heild og skiptir miklu máli að hægt sé að bjóða uppá starfsendurhæfingu í heimabyggð.