KEA eykur stofnfé í Sparisjóði Höfðhverfinga

KEA hefur í dag ásamt Sænesi og Akureyrarbæ skrifað undir viljayfirlýsingu gagnvart Sparisjóði Höfðhverfinga þess efnis að leggja fram nýtt stofnfé í Sparisjóð Höfðhverfinga þannig að eignarhlutur KEA fari úr 35% í 50%.  Fyrirhuguð er allt að 500 milljóna króna stofnfjáraukning hjá sjóðnum til þess að mæta auknum umsvifum vegna stofnunar nýs sparisjóðs á Akureyri á næstu mánuðum.

Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri fagnar því að þessum áfanga sé nú náð.  Nú liggur það fyrir að sparisjóðastarfsemi í eigu heimamanna hefjist aftur á Akureyri en enginn sparisjóður á vegum heimamanna hefur starfað á Akureyri í að verða 4 ár.  Þarna er búið að tryggja og festa í sessi fjárhagslega sterkan eyfirskan  sparisjóð sem alfarið er í eigu heimamanna.  Sjóðurinn verður sterkur og mjög vel fjármagnaður og að honum koma sterkir aðilar.  Áform miða að því að á hautsmánuðum opni nýr sparisjóður á Akureyri og trúi ég því að þessi áform mæti velvild Akureyringa sem og allra Eyfirðinga enda höfum við fundið sterkt fyrir vilja manna gagnvart nýjum sparisjóði á Akureyri.  Það er markmið þeirra sem að þessu standa að opna sjóðinn fyrir almenningi að því leyti að bjóða stofnfé til sölu þegar uppbygging sjóðsins á Akureyri er vel á veg komin.