KEA eykur við hlut sinn í Ásbyrgi Flóru

KEA hefur nýtt sér forkaupsrétt og gengið frá kaupum á auknum hlut í Ásbyrgi Flóru en fyrir átti KEA um þriðjungshlut.  Samhliða þessum breytingum hefur Kristján Kristjánsson verið ráðinn framkvæmdastjóri félagsins en hann kaupir jafnframt 20% eignarhlut í félaginu.  KEA mun eiga 80% hlutafjár.  Ásbyrgi Flóra hefur vaxið töluvert s.l. misseri, aðallega með kaupum á framleiðslu- og heildsölufyrirtækinu Maxí í Reykjavík en með þeim kaupum tæplega þrefaldaðist velta félagsins.  Í framhaldi af þeim kaupum var öll framleiðslustarfsemi og störf Maxí flutt til Akureyrar.  Ásbyrgi Flóra er framleiðslu- og heildsölufyrirtæki á Akureyri og eru framleiðsluvörur félagsins undir merkjum Flóru og Maxí en Flóra er gamalt og rótgróið vörumerki sem á rætur sínar að rekja til framleiðslustarfsemi KEA á sínum tíma.

Kristján er Akureyringur en hefur verið búsettur og starfað erlendis síðastliðin 15 ár.  Hann hefur eins og áður sagði samhliða ráðningu sinni keypt 20% eignarhlut í fyrirtækinu.  ''Ég hef áhuga á að byggja félagið frekar upp og deili þeirri skoðun minni með KEA að á þessu sviði eru tækifæri til innri og ytri vaxtar sem stefnt verður á að nýta með það að markmiði að efla og útvíkka starfssemi fyrirtækisins''.  Velta Ásbyrgis Flóru er tæplega 400 milljónir króna og 11 manns vinna hjá fyrirtækinu í dag.