KEA færir FSA veglega gjöf

Í tilefni af því að 120 ár eru í dag liðin frá stofnun KEA færir félagið Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri fullkomið færanlegt ómskoðunartæki að gjöf.  Af þessu tilefni heimsækir Dorrit Moussaieff forsetafrú Fjórðungssjúkrahúsið og afhendir gjöfina fyrir hönd KEA.  Verðmæti tækisins er 5 milljónir króna.  

Ómskoðunartækið sem KEA færir Fjórðungssjúkrahúsinu að gjöf er af nýrri kynslóð tækja á þessu sviði og nefnist Micromaxx.  Tækið er notað til að auðvelda ástungur á æðum og við deyfingar.  Tækið er einnig notað til skoðunar á hjarta og öðrum innri líffærum, sérstaklega í aðgerðum og hjá gjörgæslusjúklingum.  Vegna þess hve meðfærilegt tækið er má nota það til bráðagreiningar á slysadeild og í sjúkraflug.  Er því  óhætt að segja að með tilkomu tækisins sé stigið framfaraskref á FSA.

 

Það er von félagsins að gjöfin muni hafa fyrirbyggjandi áhrif, bæti öryggi og auki velferð.  FSA er háskólasjúkrahús og jafnframt aðal varasjúkrahús landsins með tilliti til almannavarna og miðstöð sjúkraflugs.