KEA gefur Sjúkrahúsinu á Akureyri 10 milljónir króna

KEA varð á þessu ári 130 ára og af því tilefni afhentu Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA og Birgir Guðmundsson, formaður stjórnar KEA, Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) í dag 10 milljónir króna að gjöf til kaupa á nýju gegnumlýsingartæki. 

Gegnumlýsingartækið, eða skyggnimagnarinn, er röntgentæki sem aðallega er notað á skurðstofum. Með tækinu er unnt að gegnumlýsa sjúkling samtímis sem verið er að framkvæma aðgerð og sjá á skjá hvað gerist inni í líkamanum í rauntíma.

Tækið er mest notað þegar verið er að lagfæra beinbrot, við opnar aðgerðir á beinum, við nýrnasteins- og æðaaðgerðir og þegar gangráður er þræddur í hjarta. Tæki sem þetta er  algerlega ómissandi á nútíma skurðstofu.

Nýr skyggnimagnari er dýrt tæki en verð hans fer eftir tegund og útbúnaði.  Unnið er að kaupum og gert er ráð fyrir að nýja tækið verði afhent um miðbik næsta árs.

 Okkar leið til að fagna ákveðnum tímamótum

„Hafi félagið hagnað af starfsemi sinni er það vilji KEA að láta gott af sér leiða með stuðningi við menn og málefni. Liður í því er að styðja eins og við getum við bakið á lykilstofnunum á félagssvæði KEA, svo sem Sjúkrahúsinu á Akureyri og Háskólanum á Akureyri,“ segir Halldór.

Þetta er þriðja stóra peningagjöfin sem KEA færir SAk á síðustu 10 árum og Halldór segir félagið stolt af því  að geta staðið undir slíku. „Félagið varð 130 ára gamalt á þessu ári. Þetta er okkar leið til að fagna þeim tímamótum og við vitum að mjög margir munu njóta góðs af gjöfinni og þetta styrkir SAk í þeim innviðagæðum sem stofnunin getur veitt sínu nærsamfélagi,“ segir hann.

 Ómetanlegur stuðningur

„Þessi höfðinglega afmælisgjöf KEA mun nýtast sjúkrahúsinu mjög vel,“ segir Bjarni S. Jónasson, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri. Hann bendir á að nýi skyggnimagnarinn muni leysa af hólmi rúmlega 20 ára gamalt tæki og endurnýjunin sé meira en tímabær.

„Ég vil nota tækifærið og þakka KEA þann mikla hlýhug og velvilja sem félagið hefur sýnt sjúkrahúsinu á liðnum árum. Þessi stuðningur er ómetanlegur,“ segir Bjarni.