KEA gefur Sjúkrahúsinu á Akureyri 5 milljónir króna

Í tilefni þess að liðin eru 60 ár frá því að starfsemi Sjúkrahússins á Akureyri flutti í nýtt húsnæði við Eyrarlandsveg hefur KEA ákveðið að færa gjafasjóði sjúkrahússins 5 milljónir króna að gjöf.    KEA hefur áður stutt við tækjakaup sjúkrahússins og gaf m.a. fyrir nokkrum árum færanlegt ómskoðunartæki til spítalans, en mikil endurnýjunarþörf er nú á tækjakosti þessa mikilvæga landshlutasjúkrahúss.

Bjarni Jónasson forstjóri sjúkrahússins sagði  „ég vil færa KEA kærar þakkir fyrir þessa höfðinglegu afmælisgjöf sem kemur að góðum notum. Það er okkur mikilvægt að finna þann hlýhug og velvilja sem KEA hefur sýnt Sjúkrahúsinu á Akureyri af miklum myndarskap í gegnum tíðina“.

Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA, sagði „ánægjulegt að staðbundin fyrirtæki og samtök taki sig saman og gefi fjármuni til tækjakaupa á Sjúkrahúsinu á Akureyri.  Gjafirnar eru mikilvæg viðbót og  það hefur komið mörgum á óvart hve stór hluti tækja spítalans hefur komið frá velunnurum hans.  KEA vill leggja sitt að mörkum og taka þátt í að styrkja starfsemi þessarar mikilvægu stofnunar í héraðinu“.