KEA gerir styrktarsamning við Knattspyrnufélag Akureyrar

KEA  og Knattspyrnufélag Akureyrar (KA) hafa gert með sér ítarlegan samstarfssamning, sem tekur til allra deilda KA. Samningurinn, sem gildir til 31. desember 2008, var undirritaður á 80 ára afmælisdegi KA 8. janúar sl. Á samningstímanum er KEA einn af aðalstyrktaraðilum Knattspyrnufélags Akureyrar.Hér er um að ræða heildarsamning við KA, sem tekur þar til allra deilda félagsins – knattspyrnu-, handknattleiks-, blak- og júdódeildar – sem og aðalstjórnar.  KEA hefur lengi stutt vel við einstakar deildir innan KA, en nú hefur sem sagt verið gerður heildarsamstarfssamningur við KA sem tekur til alls félagsins.

Á 80 ára afmælisári eru um 900 virkir iðkendur í Knattspyrnufélagi Akureyri. Þar af lætur nærri að um 400 iðkendur séu í knattspyrnu, frá yngstu aldursflokkum og upp í meistaraflokk karla, um 230 iðkendur í handknattleik (meistaraflokkar karla og kvenna, ungmennaflokkur kvenna og 2. flokkur karla eru innan vébanda Handboltafélags Akureyrar), um 100 iðkendur í júdó og sem næst 170 iðkendur í blaki – í barna- og unglingaflokkum, meistaraflokkum og öldungaflokkum.

Skráðir félagar í KA eru nú 2040 talsins.