KEA hefur keypt 5% eignarhlut í Samkaupum

Dótturfélag KEA hefur gengið frá kaupum á 5% eignarhlut í Samkaupum en það félag er 3ja stærsta matvörukeðja landsins.  KEA er ekki ókunnugt Samkaupum því allar matvöruverslanir KEA voru sameinaðar félaginu fyrir um 14 árum síðan og varð KEA við það stærsti eigandi Samkaupa.  Eignarhlutur KEA í Samkaupum var allur seldur á árinu 2003.

Samkaup reka verslanir víða um landið undir merkjum Nettó, Kaskó, Samkaup Úrval og Samkaup Strax.  Umsvif félagsins eru umtalsverð á Norðausturlandi en heildarvelta Samkaupa eru rúmir 23 milljarðar á ársgrundvelli.  KEA mun skipa mann í stjórn félagsins.

 

Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóri KEA segist vera ánægður með fjárfestinguna en KEA hefur fylgst vel með Samkaupum síðustu ár og nú gafst tækifæri á því að fjárfesta í félaginu.  Rekstur félagsins sé góður og efnahagur er traustur.  Nú er KEA komið aftur að verslunarrekstri með óbeinum hætti og slíkt henti KEA vel.  KEA hefur þekkingu og reynslu af þessum rekstri og við viljum leggja okkar af mörkum í samstarfi við aðra eigendur við að gera gott fyrirtæki betra.