KEA kaupir 45% eignarhlut í Stefnu ehf

KEA hefur keypt 45% eignarhlut í upplýsingatæknifyrirtækinu Stefnu ehf. Stefna hefur lagt áherslu á víðtæka þjónustu á sviði upplýsingatækni, verslun og hugbúnaðarþróun á sviði veflausna. Í kjölfar innkomu nýrra hluthafa verða gerðar breytingar sem miða að því að einfalda og skerpa áherslur í rekstri félagsins.Stefnt er að því að Stefna muni fyrst og fremst einbeita sér að hönnun, þróun og sölu á hugbúnaði. Stefna hefur þegar náð góðum árangri með veflausnarforritið Matartorg og vefumsjónarkerfið Moya. “Við höfum trú á að Stefna geti orðið öflugt hugbúnaðarhús með aðsetur á Akureyri. Í fyrirtækinu hefur verið unnið að áhugaverðum þróunarverkefnum á hugbúnaðarsviði og markmið KEA með þessari fjárfestingu er m.a. að efla þann þátt í starfsemi félagsins,” segir Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA. “Þetta er eðlilegt skref í þróun félagsins. Við fáum til liðs við okkur mjög öfluga aðila, sem hafa mikinn fjárhagslegan styrk og fagþekkingu. Framtíð Stefnu er því björt með nýja hluthafa innanborðs,” segir Matthías Rögnvaldsson, framkvæmdastjóri Stefnu.