KEA kortið

Vegna frétta um kvörtun Akureyrarapoteks varðandi KEA kortið vill KEA taka fram eftirfarandi: Samkvæmt samþykktum KEA ber félaginu að leita góðra viðskiptakjara fyrir félagsmenn sína.  Í því felst að stór hópur fólks tekur sig saman og leitar afsláttakjara á vörum og þjónustu.  Til þess að samstarfsaðilar vilji veita þessum hópi samningsbundin afsláttarkjör þurfa þeir að hafa einhvern hvata til að bjóða  sem best. 

KEA kortið virkar eins og hver önnur afsláttar- og fríðindakort sem hafa viðgengist hér á landi um árabil. KEA sjálft veitir engan afslátt og hagnast  ekki á þessu fyrirkomulagi.  Kortinu er því ekki ætlað að auka viðskipti við félagið sjálft, líkt og gildir um mörg önnur tryggðarkort, afsláttarkjörin renna beint og óskipt til félagsmanna við kaup á vöru og þjónustu.   Kortinu má líkja við afsláttarkort stéttarfélaga svo dæmi sé tekið. Það hefur verið haft að leiðarljósi frá upphafi að ná sem bestum afsláttarkjörum hjá samstarfsaðilum og einnig er horft til þess að sem flestir á félagssvæðinu geti nýtt sér þá afslætti sem kortið veitir.  Viðskiptakjör sem bjóðast félagsmönnum vega þyngst þegar metið er við hvaða aðila er samið hverju sinni.

Það myndi draga mjög úr virkni KEA kortsins og áhuga aðila á að veita afsláttarkjör, ef öllum sem eftir því leita yrði veittur aðgangur að kortinu.  Reynslan hefur sýnt að  núverandi fyrirkomulag tryggir góð afsláttarkjör fyrir félagsmenn KEA og sú staðreynd leiðir af sér það fyrirkomulag sem nú er unnið eftir.   Samstarfssamningar eru gerðir til eins árs í senn,  öllum er frjálst að hafa samband við félagið og bjóða afsláttarkjör en eðlilega er horft  til þess að þau innihaldi betri viðskiptakjör en þau sem fyrir eru.  Einnig skiptir dreifinet samstarfsaðilanna máli, eftir því sem það er víðtækara gagnast það fleiri félagsmönnum betur, en félagssvæði KEA er Eyjafjörður og Þingeyjarsýslur.   KEA fagnar uppbyggingu nýrra fyrirtækja á starfssvæði sínu en KEA kortið er ekki hugsað sem verkfæri til að nota við uppbyggingu á atvinnustarfsemi og því er ekki ætlað að styrkja samstarfsaðilana, heldur fyrst og fremst að afla bættra viðskiptakjara fyrir félagsmenn sína.  Hvað aðkomu KEA varðar að uppbyggingu fyrirtækja á félagssvæðinu að þá gerist það fyrst og fremst  í gegnum fjárfestingastarfsemi félagsins en ekki í gegnum KEA kortið.

KEA kortið er mjög útbreytt, meira en helmingur íbúa félagssvæðisins eru félagsmenn í KEA eða um 18 þúsund manns og mjög stór hluti þeirra virkir notendur KEA kortsins.  Kortið hefur fært fjölmörgum heimilum á svæðinu verulegar fjárhæðir í bættum viðskiptakjörum og það hafa félagsmenn kunnað að meta.

KEA mun ekki bregðast sérstaklega við þessari kvörtun Akureyrarapóteks.  KEA telur að ekki verði séð að  KEA kortið, sem á sér  fjölmargar hliðstæður, hafi neitt með samkeppnislög að gera og sé í alla staði eðlilegt.