KEA og UFA gera samning um Akureyrarhlaupið

Forsvarsmenn KEA og UFA undirrituðu í dag þriggja ára samstarfssamning vegna árlegs Akureyrarhlaups.  KEA mun verða aðalstyrktaraðili hlaupsins næstu þrjú ár og mun hlaupið heita Akureyrarhlaup KEA.

Í ár verður hlaupið haldið þann 15. september nk. og er markmið samstarfssamningsins að efla umfang hlaupsins og gera það að meiri og stærri viðburði á landsvísu.  KEA og UFA munu hvetja til almennrar þátttöku í hlaupinu og jafnframt að hvetja fólk á öllum aldri til að taka þátt í hlaupa- eða gönguhópum sem fara í gang í byrjun ágúst.

Akureyrarhlaupið hefur verið haldið frá árinu 1992.  Frá upphafi hafa verið hlaupnar þrjár vegalengdir, þ.e.a.s. 3 km, 10 km og hálft maraþon.  Nokkur hundruð manns hafa árlega tekið þátt í Akureyrarhlaupinu.

Rannveig Oddsdóttir segir UFA fagna því að KEA skuli styrkja hlaupið með svo veglegum hætti.  „Stuðningur KEA kemur til með að auðvelda okkur undirbúning hlaupsins og styður þá þætti sem hafa reynst okkur hvað erfiðastir undanfarin ár, þ.e. fjármögnun og markaðssetningu. Samstarfið við KEA er UFA hvatning til að standa vel að hlaupinu og gera það að stærri og glæsilegri viðburði í bæjarlífinu en verið hefur.“