Hugbúnaðarfyrirtækið Wise hefur keypt allt hlutafé í Þekkingu en KEA hefur átt 50% eignarhlut í því félagi frá árinu 2004 eða í tæplega 20 ár. Aðrir eigendur Þekkingar voru lykilstjórnendur hjá fyrirtækinu. Wise hyggst með kaupum sínum fjölþætta í starfsemi sinni og útvíkka þjónustuframboð sitt en Wise er með hluta af starfsemi sinni á Akureyri. Miklar breytingar og þróun hafa átt sér stað hjá upplýsingatæknifyrirtækjum á Íslandi hin síðari ár og Þekking varð að aðlaga sig að þeim veruleika og það hefur nú gerst með þessum viðskiptum en þau eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.
Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóri KEA segir að ferðalag KEA með Þekkingu nái yfir langt tímabil. Við keyptum félagið á sínum tíma í samfloti með lykilstjórnendum þess. Félagið hafi vaxið hægt en örugglega frá þeim tíma en mikil samþjöppun hefur átt sér stað á meðal fyrirtækja á starfssviði Þekkingar. Lykillinn að samkeppnishæfi til framtíðar á þessum hraðbreytilega markaði er að bjóða upp á fjölþætta þjónustu í upplýsingatækni og hún næst best með stærri rekstrareiningum. Það var því óumflýjanlegt að Þekking yrði hluti af stærri heild og ég held að Þekking muni sóma sér vel í samstæðu Wise en starfsemi félaganna skarast lítið sem ekkert.