KEA styður Andrésar Andar leikana

Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA og Björn Gunnarsson formaður Skíðafélags Akureyrar, hafa undirritað samning um stuðning KEA við Skíðafélag Akureyrar.  Samningnum er sérstaklega ætlað að styrkja Andrésar Andar leikana sem haldnir verða dagana 24. til 26. apríl.

Á leikunum keppa að jafnaði 700-800 börn og fylgja þeim bæði foreldar og vinir, auk annarra áhugamanna. Formaður Skíðafélagsins, Björn Gunnarsson, segir félagið þakklátt fyrir stuðninginn. Hann segir aðkomu öflugra styrktaraðila vera nauðsynlega vegna skíðamóta og bendir á að tilkoma snjóframleiðslu í Hlíðarfjalli, sem KEA hafi átt aðild að, hafi breytt miklu fyrir íþróttina.