KEA styður Skíðafélag Akureyrar

Halldór Jóhannsson og Tómas Ingi Jónsson
Halldór Jóhannsson og Tómas Ingi Jónsson
Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA og Tómas Ingi Jónsson, formaður Skíðafélags Akureyrar, undirrituðu í dag samning um stuðning KEA við Skíðafélag Akureyrar.  Samningnum er sérstaklega ætlað að styrkja mótshald sem fyrirsjáanlegt er á næstu misserum.

Meðal annars er um að ræða  Andrésar Andarleikana sem haldnir verða dagana 18.-21. apríl en þeir eiga sér rúmlega 30 ára sögu.  Þangað mæta að jafnaði 700-800 börn auk foreldra, vina og vandamanna og hafa gestir bæjarins vegna leikanna því verið  allt að 2000 talsins.

Landsmót SKÍ er haldið árlega og átti það í ár að vera á höfuðborgarsvæðinu.  Af veðurfarslegum ástæðum og vegna snjóleysis var það flutt norður yfir heiðar.  Keppendur á landsmóti eru rúmlega 120 og þeim fylgja fararstjórar og aðstandendur.  Samhliða Landsmóti fer fram alþjóðlegt FIS skíðamót þar sem meðal þátttakenda eru nokkrir erlendir keppendur, m.a. silfurverðlaunahafi síðustu Ólympíuleika Ivica Kostelic.   Þessi mót fara fram dagana 11.-15. apríl.

 

Auk þess að styðja Skíðafélagið með þessum hætti er KEA aðili að “Vinum Hlíðarfjalls” sem hafa komið að fjármögnun snjóframleiðslu í Hlíðarfjalli.  Tómas Ingi segir ljóst að það sé fyrst og fremst tilkoma snjóframleiðslu sem gerir Skíðafélaginu kleift að taka að sér stór mót á borð við Landsmótið með svo litlum fyrirvara.   Hann bendir á að auk allra þeirra keppanda og gesta sem koma til mótsins séu starfsmenn þeirra fjölmargir, við framkvæmd Landsmóts þar u.þ.b.  60 starfsmenn á dag, og á  Andrés þarf 100 starfsmenn á dag. “Það er meðal annars þess vegna sem við þurfum á öflugum styrktaraðilum að halda og við erum afar þakklát fyrir aðkomu KEA” .

Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA, segir ljóst að metnaðarfullt starf Skíðafélagsins hafi augljóslega mikil jákvæð áhrif á svæðið auk þess sem menn sjái þess glögg merki að snjóframleiðslan hafi orðið til þess að fjölga ferðamönnum til bæjarins og efla áhuga heimamanna á skíðaíþróttinni.  Þetta segir Halldór  fyrst og fremst vera ástæður þess að KEA kemur að þessum verkefnum með jafn veglegum hætti og raun ber vitni.