KEA styrkir gullstelpurnar

Talið frá vinstri, Hildur Ösp Gylfadóttir varaformaður stjórnar KEA, Eiríkur Haukur Hauksson formaðu…
Talið frá vinstri, Hildur Ösp Gylfadóttir varaformaður stjórnar KEA, Eiríkur Haukur Hauksson formaður stjórnar KEA, Martha Hermannsdóttir fyrirliði KA/Þórs og Ásdís Guðmundsdóttir leikmaður KA/Þórs.

Stjórn KEA hefur ákveðið að styrkja handknattleikslið KA/Þórs vegna árangurs liðsins á nýafstöðnu keppnistímabili þar sem liðið vann alla titla sem í boði voru. Þannig varð liðið meistari meistaranna, deildarmeistari og Íslandsmeistari eftir frækinn sigur í úrslitaeinvígi við Val í Valsheimilinu þann 6. júní 2021.

„Þetta er frábær árangur hjá stelpunum og okkur fannst vert að heiðra þær fyrir árangurinn. Við erum afar stolt af þeim og viljum með þessum hætti óska þeim áframhaldandi góðs gengis,“ segir Eiríkur Haukur Hauksson, stjórnarformaður KEA um hálfrar milljón króna styrk sem KEA færði handknattleiksliði KA/Þórs vegna árangurs þeirra á nýliðnu keppnistímabili.

„KEA styrkurinn kemur sér vel fyrir áframhaldandi starf og uppbyggingu liðsins. Við erum þakklátar fyrir stuðninginn og höldum áfram að gera okkar besta,“ segir Martha Hermannsdóttir, fyrirliði kvennaliðs handknattleiksdeildar KA/Þórs, en að hennar sögn er sigurvíman varla enn runnin af liðinu.

KEA veitir árlega styrki til ýmissa mála á sviði, menningar, íþrótta og lista. Styrkurinn til kvennaliðs handknattleiksdeildar KA/Þórs er hins vegar aukastyrkur sem samþykktur var af stjórn KEA einfaldlega vegna þess að stjórninni fannst að stelpurnar ættu umbun skilið fyrir þennan frábæra árangur vetrarins. „Þetta eru flottar stelpur og frábærar fyrirmyndir og ekki á hverjum degi sem Íslandsmeistaratitill kemur hingað til Akureyrar,“ segir Eiríkur.