KEA styrkir Hjálparstarf Kirkjunnar

Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA, afhenti í dag Hjálparstarfi kirkjunnar á Akureyri 250 þúsund króna peningagjöf sem ætluð er til kaupa á matvælum til styrktar skjólstæðingum hjálparstarfsins.

Halldór segir að með þessari gjöf vilji KEA létta undir með því fólki sem þurfi á aðstoð að halda fyrir jólin, en þetta er fimmta árið í röð sem KEA styrkir Hjálparstarfið.

Jón Oddgeir Guðmundsson, sem veitti gjöfinni viðtöku, segir að þörf fyrir aðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar hafi aukist mikið frá síðasta ári og þetta framlag KEA komi því sannarlega að góðum notum. Jón Oddgeir segir að á annað hundrað manns í Eyjafirði og Þingeyjarsveit leiti um þessar mundir eftir aðstoð hjá Hjálparstarfi kirkjunnar, auk þess hafi stofnunin samband við einstaklinga sem hún telur hjálpar þurfi og bjóði fram aðstoð sína.