KEA styrkir KA og Þór

Framkvæmdastjóri KEA, Halldór Jóhannsson, hefur skrifað undir styrktarsamninga við íþróttafélögin KA og Þór.

Um er að ræða heildarsamninga sem taka til allra deilda félaganna og gilda þeir til eins árs. KEA hefur lengi stutt vel við íþróttafélögin en á samningstímanum verður KEA einn af aðalstyrktaraðilum félaganna.

Sævar Pétursson skrifaði undir samninginn fyrir hönd KA og Arnar Friðriksson fyrir hönd Þórs.

Þeir sögðu báðir þegar undirritun fór fram að þessir samningar væru afar þýðingarmiklir fyrir uppbyggingu og starf félaganna en virkir iðkendur beggja félaganna eru hátt í tvö þúsund talsins.

Halldór segir þetta vera framhald á þeim stuðningi sem KEA hefur veitt þessum íþróttafélögum hin síðari ár.  Við leggjum metnað okkar í að skila hluta af afkomu okkar út í samfélagið til stuðnings góðra verka og til að efla íþrótta- og æskulýðsstarf á félagssvæði KEA.