KEA styrktaraðili Fiskidagsins mikla

Júlíus Júlíusson og Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir undirrita samninginn.
Júlíus Júlíusson og Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir undirrita samninginn.
Í dag var undirritaður samningur á milli KEA og Fiskidagsins mikla sem felur í sér öflugri aðkomu KEA að Fiskideginum en áður hefur verið.   Fiskidagurinn mikli er haldinn í sjötta sinn í ár. Júlíus Júlíusson framkvæmdastjóri Fiskidagsins segir að frá upphafi hafi markmiðið með þessum degi verið að fá fólk til þess að koma saman, hafa gaman, borða fisk og að allt á hátíðarsvæðinu sé frítt, matur skemmtun og afþreying.  Hann segir jafnframt að aðkoma KEA skipti miklu máli við undirbúning og framkvæmd Fiskidagsins.

Dagurinn verður með svipuðu sniði og áður þó að alltaf sé eitthvað um að nýjum hugmyndum sé hrint í framkvæmd. Dæmi um slíkt er  Fiskisúpukvöldið mikla sem var í fyrsta skipti í fyrra og sló svo sannarlega í gegn. Á föstudagskvöldinu fyrir Fiskidaginn mikla buðu íbúar gestum og gangandi heim til sín í fiskisúpu og vinalegheit.  Ef tveir kyndlar voru logandi fyrir utan húsið var þar súpa í boði og niðurstaðan varð sú að 4800 gestir skrifuðu í gestabækur í um 30 húsum.
Sem dæmi um nýjung Fiskidagsins mikla í ár er að allar götur á Dalvík hafa fengið ný nöfn. Í eina viku heita göturnar eftir þekktum og minna þekktum fiskum t.d. breytist Mímisvegur í Risarækjuveg, Karlsrauðatorg í Blálöngutorg og Svarfaðarbraut í Lúðubraut.
Herra Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands verður heiðursgestur Fiskidagsins mikla og mun hann m.a flytja ávarp á aðalsviði um miðjan daginn.