Meirihluti landsmanna hlynntur nýjum Kjalvegi

Capacent hefur unnið viðhorfskönnun fyrir Norðurveg um afstöðu gagnvart nýjum hálendisvegi um Kjöl. Um var að ræða símakönnun og var úrtakið 3200 manns. Þegar spurt var á landsvísu kom í ljós að 52,6% eru frekar eða mjög hlynnt að lagður verði heilsársvegur um Kjöl. 41% er mjög eða frekar andvíg framkvæmdinni.

Um 45% aðspurðra töldu að ferðum þeirra milli áfangastaða á Norður- og Suðurlandi myndi fjölga með framkvæmdinni en 55% töldu að þeim myndi ekki fjölga.

Stuðningur við framkvæmdina er mestur á Akureyri og nágrenni eða 67% og aðeins 24% á móti. Hann er næst mestur á Árborgarsvæðinu eða 65% með framkvæmdinni en 26,8% á móti. Það er einnig meirihlutastuðningur við framkvæmdina á höfuðborgarsvæðinu eða 51,4% en 41,3% á móti. Konur eru hlynntari framkvæmdinni en karlar og þeir sem yngri eru, eru hlynntari framkvæmdinni en þeir sem eldri eru. Þeir sem þurfa að fara hvað oftast milli Norður- og Suðurlands eru hlynntari framkvæmdinni en þeir sem sjaldnar fara.

“Aðspurður segir Halldór Jóhannsson stjórnarformaður Norðurvegar ehf. þetta ekki koma sér á óvart og þessi niðurstaða sé hvatning fyrir stjórn félagsins til þess að halda ótrauð áfram í því að vinna málinu framgang. Stuðningur við verkefnið á okkar nærsvæði sem og á Suðurlandi er yfirgnæfandi. Næstu skref verða að koma verkefninu á endurskoðaða samgönguáætlun og væntum við góðrar samvinnu við nýjan samgönguráðherra um það mál”.