Nýr kjalvegur styttir leiðina um 50 kílómetra

Norðurvegur ehf. stefnir að lagningu nýs vegar yfir Kjöl í einkaframkvæmd. Hluthafar eru nú þegar um 20 talsins og er um að ræða einstaklinga, fyrirtæki og sveitarfélög bæði á Norður- og Suðurlandi, en hlutur KEA er 25%. Stjórn félagsins skipa Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóri KEA, Jóhannes Jónsson í Bónus, Eiður Gunnlaugsson framkvæmdastjóri Kjarnafæðis, Kjartan Ólafsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og Gunnar Þorgeirsson formaður Sambands sveitarfélaga á Suðurlandi.Í nýrri skýrslu sem Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri hefur unnið fyrir Norðurveg ehf. kemur fram að leiðin milli Reykjavíkur og Akureyrar styttist um 47 kílómetra. Fjarlægðir milli Norðurlands og Suðurlands styttast einnig mjög mikið og styttist vegalengdin frá Selfossi til Akureyrar um 141 kílómetra. Framkvæmdakostnaður er áætlaður um 4.2 milljarða króna. Gert er ráð fyrir að veggjald verði greitt af þeim sem nota veginn og er útlit fyrir að gjaldið verði um 2.000 kr. á ferð fyrir fólksbíl en um 8.000 kr. fyrir þungaflutninga. Framkvæmdin á að geta borgað sig upp á 16 til 18 árum en gert er ráð fyrir að fyrsta rekstrarár árið 2010 verði um 500 bíla umferð á dag. Vegurinn verður 8,5 metra breiður og upphækkaður um tvo til þrjá metra yfir nánasta umhverfi. Hámarkshalli vegarins verður ekki meiri en 6,5 %. Frumathuganir á veðurskilyrðum benda til þess að veðurfar sé sambærilegt við það sem gerist á Möðrudalsöræfum en félagið hyggst standa að frekari gagnaöflun á næstu mánuðum. Framkvæmdin fellur að öllu leyti að markmiðum sem sett eru fram í samgönguáætlun til ársins 2014 m.a. um styttingu leiða milli þéttbýlissvæða og um aðkomu einkaaðila að samgönguframkvæmdum. Auk þessa samræmist framkvæmdin þeim tillögum sem nefnd á vegum Samgönguráðherra um einkaframkvæmd í samgöngumálum skilaði af sér nýverið. Þar sem Kjalvegur er hugsaður sem verkefni í einkaframkvæmd mun það ekki hafa áhrif á röð annarra framkvæmda í samgöngumálum og því vænta forsvarsmenn félagsins jákvæðra viðbragða samgönguyfirvalda eins og áður. Ný vegagerð um Kjöl með það að markmiði að tengja Norður- og Suðurland yrði gjörbylting í samgöngumálum landsmanna en hugmyndir á borð við þessa hafa um langt skeið verið uppi og notið víðtæks stuðnings. Tvær meginleiðir verða í boði milli Norður- og Suðurlands sem eykur öryggi í samgöngum milli landshluta. Með þessu móti dreifist álag á samgöngumannvirki, sem aftur dregur úr viðhaldskostnaði. Með styttri leið milli landshluta dregur úr mengun frá útblæstri bifreiða. Framkvæmdin mun auka hagkvæmni í verslun og þjónustu auk þess sem aðgangur að nýjum ferðamannastöðum á hálendinu mun opnast.