Rannsóknaboranir í sumar vegna Vaðlaheiðarganga

Ágúst Guðmundsson, jarðfræðingur, á aðalfundi Greiðrar leiðar ehf.
Ágúst Guðmundsson, jarðfræðingur, á aðalfundi Greiðrar leiðar ehf.
Í júlí nk. hefst undirbúningsvinna fyrir rannsóknaboranir vegna gerðar jarðganga undir Vaðlaheiði og er miðað við að síðla september verði lokið við að bora rannsóknaholurnar. Með þessum borunum fást nauðsynlegar upplýsingar um jarðlög svæðisins, þar með talinn vatnsleka í berglögunum. Að þeim loknuÍ júlí nk. hefst undirbúningsvinna fyrir rannsóknaboranir vegna gerðar jarðganga undir Vaðlaheiði og er miðað við að síðla september verði lokið við að bora rannsóknaholurnar. Með þessum borunum fást nauðsynlegar upplýsingar um jarðlög svæðisins, þar með talinn vatnsleka í berglögunum. Að þeim loknum tekur við úrvinnsla gagna, en gert er ráð fyrir að jarðfræðiupplýsingar fyrir hönnun ganganna gætu legið fyrir í árslok og jarðfræðiskýrsla vegna útboðs verði tilbúin í febrúar á næsta ári. Yfirumsjón með rannsóknaborunum í Vaðlaheiði hefur Ágúst Guðmundsson, jarðfræðingur, sem hefur á síðustu misserum unnið að forathugunum á legu jarðganga undir Vaðlaheiði. Gert er ráð fyrir að kostnaður við rannsóknaboranir og úrvinnslu gagna geti numið allt að 60 milljónum króna. Greiðri leið breytt í framkvæmdafélag Greið leið ehf. var stofnuð 28. febrúar 2003 í þeim tilgangi að standa fyrir nauðsynlegum undirbúningi fyrir stofnun félags um framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng. Þrjátíu hluthafar eiga hlut í Greiðri leið. Stærstu hluthafar eru Akureyrarbær (35,91%), KEA (22,67%) og Þingeyjarsveit (11,33%). Aðrir hluthafar eiga allir innan við 10% hlut hver. Á aðalfundi Greiðrar leiðar á Akureyri í gær, 22. júní, var samþykkt að breyta Greiðri leið úr því að vera undirbúningsfélag vegna Vaðlaheiðarganga í framkvæmdafélag, sem standi fyrir kynningarstarfi, áætlanagerð, jarðfræðirannsóknum, umhverfismati og samningum við ríki og fjárfesta. Þá mun Greið leið ehf. fjármagna gerð ganganna, láta gera þau og reka með innheimtu veggjalds. Einnig er í nýjum samþykktum kveðið á um að ríkissjóði verði afhent göngin þegar öll lán verði greidd upp og hlutafé verði greitt til baka til eigenda með hæfilegri ávöxtun. Nokkuð góðar aðstæður til jarðgangagerðar Þess er vænst að rannsóknaboranirnar í sumar gefi endanleg svör um heppilegustu legu ganga undir Vaðlaheiði, en sú leið sem til þessa hefur þótt hvað vænlegust gerir ráð fyrir gangamunna upp af Hallandsnesi Eyjafjarðarmegin og við Skóga í Fnjóskadal. Slík göng yrðu um 7 kílómetra löng. Hugsanlegt er að niðurstöður borana leiði til þess að nauðsynlegt verði að færa gangamunna. Nú þegar hefur fengist töluvert glögg mynd af jarðlögum á þessu svæði, sem bendir til þess að í vestanverðri Vaðlaheiði séu jarðlög heppileg til jarðgangagerðar, en ætla megi að vatnsleki sé mun meiri í berglögum í austanverðri heiðinni. Í samanburði við önnur jarðgöng á Íslandi er talið að aðstæður til jarðgangagerðar í Vaðlaheiði séu í meðallagi góðar. Kostnaður og fjármögnun Ef miðað er við sjö kílómetra göng og þar af verði vegskálar bæði vestan og austan megin Vaðlaheiðar samtals um 300 metrar, má ætla að heildarkostnaður við Vaðlaheiðargöng verði röskir fjórir milljarðar króna. Fram til þessa hafa undirbúningsrannsóknir verið kostaðar af Kaupfélagi Eyfirðinga, en félagið bauð fram fjármagn til þess að standa straum af þeim. Jafnframt samþykkti stjórn KEA á síðasta ári að leggja Greiðri leið til allt að 100 milljónir króna þegar félagið verði framkvæmdafélag, en með breytingu á samþykktum félagsins í gær hefur það skref nú verið stigið. Aðalfundur Greiðrar leiðar ehf. í gær samþykkti að heimila aukningu hlutafjár félagsins úr röskum 4,4 milljónum króna í allt að 100 milljónir króna. Í rekstrarlíkani sem forsvarsmenn Greiðrar leiðar hafa unnið með vegna fjármögnunar og reksturs ganganna er gert ráð fyrir um 500 milljóna króna stofnframlagi frá ríkinu til gerðar Vaðlaheiðarganga, jafnframt því sem virðisaukaskattur verði felldur niður vegna gerðar ganganna, með sama hætti og gert var við gerð Hvalfjarðarganga. Fram kom á aðalfundi Greiðrar leiðar í gær að stjórn félagsins hafi rætt við fjármálastofnanir um hugsanlega fjármögnun Vaðlaheiðarganga, sem hafi allar lýst miklum áhuga að koma að málum. Gert er ráð fyrir að innheimta veggjöld af vegfarendum, sem verði sem næst helmingi lægri en nú eru innheimt af vegfarendum um Hvalfjarðargöng. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að umferð um Víkurskarð hefur aukist mjög á undanförnum árum – um 5% á ári að jafnaði síðustu átta árin. Árið 1996 var sólarhringsumferð um Víkurskarð 693 bílar, en árið 2004 voru þeir 1023. Næstu skref Í kjölfar rannsóknaborananna í sumar verður væntanlega unnt að staðsetja gangamunnana. Framundan eru samningar við landeigendur beggja vegna Vaðlaheiðar og viðræður við stjórnvöld um mögulega aðkomu ríkisins að framkvæmdinni. Ekki hefur til þessa fengist rannsóknafé frá ríkinu, en þess er vænst að verkefnið verði áður en langt um líður tekið inn á vegaáætlun. Þá verður á næstunni gengið úr skugga um hvort Vaðlaheiðargöng eru umhverfismatskyld framkvæmd. Einnig er til skoðunar að gera úttekt á samfélagslegum áhrifum Vaðlaheiðarganga. Vegagerðin mun í sumar framkvæma ítarlega umferðarkönnun á Svalbarðsströnd þar sem aflað verður ýmissa upplýsinga frá vegfarendum, sem munu nýtast vel fyrir Greiða leið. Hvenær væri mögulegt að hefja framkvæmdir? Erfitt er að áætla hvenær unnt verði að hefjast handa við gerð Vaðlaheiðarganga, en gangi undirbúningur áfram vel og ekkert óvænt komi upp á næstu misserum gæti borun ganganna hafist á árinu 2008. Ekki er óraunhæft að ætla, miðað við reynslu af jarðgangagerð á Austurlandi, bæði í Fáskrúðsfjarðargöngum og Kárahnjúkavirkjun, að um þrjú ár taki að fullgera Vaðlaheiðargöng. Gangi það eftir gæti reynst mögulegt að opna Vaðlaheiðargöng fyrir umferð á árinu 2011. Stjórn Greiðrar leiðar ehf. endurkjörin Á aðalfundi Greiðrar leiðar ehf. í gær var stjórn félagsins endurkjörin. Aðalmenn í stjórn eru Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri Eyþings, formaður, Andri Teitsson, framkvæmdastjóri KEA, og Ásgeir Magnússon, starfsmaður Skrifstofu atvinnulífsins á Akureyri. Varamenn eru Bjarni Jónasson, Akureyri, og Jóhann Guðni Reynisson, sveitarstjóri Þingeyjarsveitar.