RES Orkuskóli tekur til starfa

RES Orkuskóli (The School for Renewable Energy Science ) tók formlega til starfa með opnunarhátíð í Ketilhúsinu á Akureyri í dag. Skólinn er afrakstur fjögurra ára undirbúningsferlis og verður alþjóðleg einkarekin mennta- og vísindastofnun á sviði endurnýjanlegra orkugjafa.Fyrsti nemendahópur skólans er væntanlegur til Akureyrar eftir um fjórar vikur en áætlað er að nemendur verði 50-80 þegar skólinn verður kominn í fulla starfsemi. Ljóst er að umfang skólans kallar á byggingu vísindagarða við Háskólann á Akureyri  og sömuleiðis er í farvatninu bygging nýrra íbúða við stúdentagarða Háskólans á Akureyri sem nýtast munu skólanum. Forsvarsmenn RES Orkuskóla kynntu starfsemina við hátíðlega athöfn í Ketilhúsinu á Akureyri í dag og við þá athöfn fluttu fluttu m.a. ávörp Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra og HalldórJ. Kristjánsson, bankastjóri Landsbanka Íslands. Á fundinum var tilkynnt um 150 milljóna króna framlag úr Þróunarsjóði EFTA vegna umsóknar fimm tækniháskóla í Póllandi um menntun pólskra verkfræðinga í orkufræðum við Orkuskólann. Sömuleiðis var tilkynnt um ákvörðun ríkisstjórnarinnar um 60 milljóna króna stuðing við RES Orkuskóla.

Orkuvörður ehf. hefur með stuðningi fyrirtækja og stofnana á borð við Vaxtarsamning Eyjafjarðar, Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands unnið að stofnun skólans.  Alls mun stofnhlutafé Orkuvarða ehf. verða um 200 milljónir króna. Hluthafar eru Þekkingarvörður ehf., RARIK, KEA, Eignarhaldsfélag Samvinnutrygginga, Landsvirkjun, Norðurorka, Akureyrarkaupstaður og Landsbanki Íslands.

Einn fárra skóla á þessu sviði í heiminum
Orku- og umhverfismál eru sífellt ofar í hugum fólks samhliða aukinni orkunotkun, hærra orkuverði og auknum umræðum um loftslagsbreytingar. Aukin nýting endurnýjanlegra orkugjafa á því mun meira fylgi að fagna nú en áður, ekki síst sem liður í að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

Ísland í forystu í orkumálum
Sérstaða og þekking Íslendinga á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa er mikil. Í því liggja meginrökin fyrir rekstri sérhæfðs orkuskóla á Íslandi: Hátt hlutfall af heildarorkunýtingu á Íslandi er frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Yfirlýst stefna íslenskra stjórnvalda í orkumálum miðar að frekari nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa með umhverfissjónarmið að leiðarljósi, ásamt áherslu á uppbyggingu íslensks vetnissamfélags. Mikil sérfræðiþekking er til staðar hérlendis á nýtingu jarðvarma, vatnsafls og vetnis sem orkubera. Íslensk fyrirtæki bjóða ráðgjafaþjónustu um nýtingu jarðvarma víða um heim. Jarðhitaskóli HSÞ hefur verið starfræktur hér á landi síðan 1979. Mikið brautryðjendastarf hefur verið unnið við skólann og lagður grunnur að alþjóðlegu samstarfi um nýtingu jarðhita. Það er því einstakt og hagstætt umhverfi til að byggja upp menntastofnun á þessu sviði hér á landi.

Samstarf við tugi erlendra háskóla
Til marks um þá miklu undirbúningsvinnu sem að baki skólanum liggur má nefna að nú þegar hafa verið undirritaðar samstarfsyfirlýsingar við tugi erlendra háskóla. Með slíku samstarfi eru greiddar götur erlendra nemenda til að sækja nám við skólann.
Ljóst er að umfang skólans verður umtalsvert því að jafnaði má gera ráð fyrir að yfir 2 milljónir króna fylgi hverjum nemanda við skólann að jafnaði. Þeir fjármunir koma ýmist frá stofnunum, frá fyrirtækjum að baki nemendum, sem styrkir úr sjóðum eða framlag nemenda sjálfra. Af þessu má sjá að hér er um viðamikinn rekstur að ræða.

Alþjóðlegt meistaranám
Meginverkefni RES verður að bjóða eins árs alþjóðlegt meistaranám í vistvænni orkunýtingu, samtals 45 einingar eða 90 ECTS. Byggt er á svokölluðu Bologna ferli um samræmingu á háskólastiginu í Evrópu og áformum um uppbygginu evrópsks rannsóknasvæðis.
Stefnt er að því að RES bjóði í náinni framtíð nám á öllum sviðum endurnýjanlegra orkugjafa, þar með talinn jarðvarmi, vatnsafl, vindorka, sjávarfallaorka, sólarorka, lífmassi og fleira, auk áherslu á efnarafala og þá sérstaklega á vetni sem orkubera.
Meistaranámið verður rannsóknatengt og alþjóðlegt. Öll kennsla og samskipti við nemendur fara fram á ensku og þannig verður unnt að bjóða námið erlendum nemendum til jafns við íslenska. Þetta fyrirkomulag gefur mikla möguleika í tengslum við kennslu- og rannsóknasamstarf við erlenda rannsóknaháskóla og stofnanir. Samhliða uppbygginu námsins hafa forráðamenn RES markvisst byggt upp formlegt samstarfsnet, „RES-Net“, með á þriðja tug háskóla í Evrópu og Ameríku sem undirritað hafa samninga um samstarf við RES. Netinu er ætlað að vera vettvangur fyrir samstarf á sviði menntunar og rannsókna auk þess að vera mikilvæg uppspretta tengsla fyrir eigendur RES.

Uppbygging námsins
Meistaranámið er alls 45 íslenskar námseiningar eða 90 ECTS einingar sem ljúka skal á einu ári. Kennslan fer öll fram í lotum þannig að hvert námskeið er kennt í 1-3 vikur (2-6 ECTS einingar), 3-4 fyrirlestratímar á dag auk dæmatíma, verklegra æfinga og skoðunarferða. Inntökuskilyrðin eru ströng; krafist er góðs undirbúnings í verkfræði og/eða raungreinum, auk hagfræði. Námið skiptist í þrjár annir sem hver er 30 ECTS einingar.

Á fyrstu önn (janúar til apríl) verður farið yfir grunnatriði og eiginleika mismunandi endurnýjanlegra orkugjafa, aðferðir við rannsókn orkugjafanna, tæknilega- og verkfræðilega þætti í tengslum við nýtingu, umhverfisáhrif nýtingar og almennt um stöðu orkumála í heiminum eins og hún er nú. Fjallað verður meðal annars um aðferðir við að bæta orkunýtingu, nýjustu orkutækni, orkugeymslu, samsett orkukerfi og LCA-greiningar. Hagrænn þáttur nýtingar orkuauðlinda verður sérstaklega skoðaður og fjallað almennt um stjórnun orkumála og mörkun orkustefnu.

Á annarri önn (maí til ágúst) velja nemendur eitt af sjö áherslusviðum meistaranámsins og taka fjölda námskeiða hver á sínu valda sérsviði: a) jarðhitaorka; b) vatnsaflsorka; c) lífmassaorka og vistvænt eldsneyti; d) vindorka, öldu- og sjávarfallaorka; e) sólarorka; f) efnarafalar og vetni; og g) orkukerfi og orkustjórnun. Áhersla er lögð á hagnýta og tæknilega þætti og að nemendur öðlist nægilega kunnáttu og færni til að taka virkan þátt í úrlausn flókinna verkefna sem tengjast sívaxandi nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa.

Á þriðju önn (september til desember) vinna nemendur 30 ECTS eininga meistaraverkefni undir handleiðslu kennara/sérfræðinga RES Orkuskóla, sérfræðinga orkufyrirtækja, verkfræðistofa og/eða kennara við  aðra innlenda eða erlenda samstarfsháskóla.

Markhópur – nemendur
Markhópar RES eru einkum þrír. Í fyrsta lagi Íslendingar. Telja verður þennan hóp, þrátt fyrir aukinn áhuga, fremur fámennan. Hann er engu að síður afar mikilvægur. Í öðru lagi nemar sem koma inn í gegnum evrópskt menntanet á borð við Erasmus. Í þriðja lagi nemendur sem greiða allan kostnað með öðrum hætti.

Prófessorar og kennarar RES
Stærstur hluti kennara og annars starfsliðs skólans er alþjóðlegur. Einnig koma að skólanum prófessorar og kennarar er starfa við Háskólann á Akureyri, Háskóla Íslands og ÍSOR. Að sama skapi verður, þrátt fyrir sjálfstæði háskólastofnunarinnar, margvísleg þjónusta samnýtt með Háskólanum á Akureyri, svo sem rannsóknarými, bókasafn, m.a. aðgangur að rafrænu safni, kennslustjórnun og próftaka.

Megintekjur RES verða skólagjöld nemenda. Það er Háskólinn á Akureyri sem mun skv. þjónustusamningi annast og veita formlega M.Sc. gráðu í endurnýjanlegum orkugjöfum.

Á myndinni eru aðstandendur RES Orkuskóla á opnunarhátíðinni í dag ásamt bæjarstjóranum á Akureyri og utanríkisráðherra. Frá vinstri:  Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri, Guðjón Steindórsson, framkvæmdastjóri Orkuvarða ehf. sem á og rekur RES Orkuskóla, Björn Gunnarsson, forstöðumaður akademíska hluta RES Orkuskóla, Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, Benedikt Sigurðarson, stjórnarmaður Orkuvarða, Þórleifur S. Björnsson, forstöðumaður RES Orkuskóla og Davíð Stefánsson, stjórnarformaður Orkuvarða ehf.