Saga Capital fær fjárfestingarbankaleyfi

Saga Capital Fjárfestingarbanki hlaut í liðinni viku fullt fjárfestingarbankaleyfi.  Fjármálaeftirlitsins. Lokuðu hlutafjárútboði, sem félagið efndi til í ársbyrjun, er nú lokið og er eigið fé Saga Capital nú 10 milljarðar króna.

Félagið fékk aðild að Nordic Exchange á Íslandi frá og með 30. apríl sl. og varð þar með fyrsti aðilinn sem hefur viðskipti á hlutabréfa- og skuldabréfamarkaði Nordic Exchange á Íslandi eftir sameininguna við OMX þann 2. apríl síðastliðinn.
Saga Capital hefur starfsemi sína formlega á morgun, föstudaginn 4. maí, sléttum 7 mánuðum eftir að tilkynnt var um stofnun þess. Jafnframt hefur félagið opnað heimasíðu og er slóðin   www.sagacapital.is


Saga Capital er alþjóðlegur fjárfestingarbanki, sem sérhæfir sig í fyrirtækjaráðgjöf, útlánum og verðbréfamiðlun. Bankinn stýrir að auki eigin fjárfestingum með virkri þátttöku á innlendum og erlendum verðbréfamörkuðum.

Saga Capital var stofnað í október 2006 af nokkrum fyrrverandi starfsmönnum íslensku viðskiptabankanna og völdum fagfjárfestum. Höfuðstöðvar félagsins eru á Akureyri en það er jafnframt með skrifstofur í Reykjavík. Ætlunin er að opna skrifstofu í Eystrasaltslöndunum í náinni framtíð.

 
Lykilstjórnendur

 Lykilstjórnendur Saga Capital störfuðu allir áður hjá íslensku viðskiptabönkunum.

Fyrrum starfsmenn Kaupþings eru Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga
Capital, dr. Hersir Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri áhættustýringar, Geir Gíslason framkvæmdarstjóri útlánasviðs og Rúnar Friðriksson, framkvæmdastjóri eigin
viðskipta.   Fyrrum starfsmaður Glitnis er Örn Gunnarsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar, frá Straumi-Burðarási kom Helga Hlín Hákonardóttir hdl., framkvæmdastjóri lögfræðisviðs og frá MP Fjárfestingarbanka kom Ómar Sigtryggsson;
framkvæmdastjóri markaðsviðskipta.


Hluthafahópur

Við sölu hluta í Saga Capital var leitað til stofnanafjárfesta með breiðan bakgrunn úr ýmsum sviðum atvinnulífsins. Stefnt hefur verið að dreifðri og jafnri eignaraðild hluthafa. Útgefið hlutafé er 9.000 milljónir en helstu hluthafar eru sem hér segir:

 

 Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson             1.100.000.000             12%

 Standhóll                                                   1.000.000.000             11%

 Sundagarðar hf.                                       1.000.000.000             11%

 Hildingur ehf.                                              913.043.478             10%

 Sparisjóður Mýrasýslu                              500.000.000              6%

 Sparisjóður Norðlendinga                        460.000.000              5%

 Ehf. Flúðir                                                    305.000.000              3%

 Sparisjóður Svarfdæla                              300.000.000              3%

 Ehf. Samvinnutryggingar                           260.869.565              3%

 Sparisjóðurinn í Keflavík                           260.869.565              3%

 Kaupfélag Suðurnesja                              217.391.304               2%

 

Bjartsýnn á gott gengi

 “Við höfum fengið frábærar viðtökur á fjármálamarkaðinum sem endurspeglast m.a. í því hversu hratt og vel hlutafjárútboðið okkar gekk. Hluthafahópurinn er breiður og öflugur og ég hlakka mjög til að vinna með honum. Stærstu hluthafarnir eiga á bilinu 8-12% hver en þeir spanna mjög vítt svið atvinnulífsins. Með slíka bakhjarla er full ástæða til að vera bjartsýnn,” segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga Capital.

 “Stjórnendur bankans búa yfir víðtækri reynslu og þekkingu á flestum sviðum fjármála. Markmið okkar er að aðstoða viðskiptavini okkar við að hrinda áformum þeirra í framkvæmd og finna bestu leiðina að settu marki. Saga Capital er alþjóðlegur
fjárfestingarbanki sem skilgreinir starfsvæði sitt mjög vítt. Við höfum alla burði til að láta til okkar taka á völdum sviðum fjármála, til hagsbóta fyrir viðskiptavini okkar og
hluthafa,” segir hann ennfremur.